Samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 15:52:03 (3716)

1996-03-07 15:52:03# 120. lþ. 103.91 fundur 216#B samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:52]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Það kemur mér svolítið á óvart hvernig hv. þm. Sighvatur Björgvinsson leggur þessa umræðu upp sem meint brot eggjaframleiðenda á lögum og stillir hæstv. viðskrh. upp sem ábyrgum fyrir þeim framgangi mála. Ég held að öllum hafi verið ljóst að búvörulögin ganga að einhverju leyti framar öðrum almennum lögum eins og samkeppnislögum þannig að í versta falli fyrir eggjaframleiðendur væri um að ræða álitamál. Og ef um brot hefði verið að ræða og hægt væri að gera viðskrh. að einhverju leyti ábyrgan þá væru þetta brot sem líka viðgengust í ráðherratíð hv. þm. Sighvats Björgvinssonar og hann væri þar af leiðandi meðábyrgur núv. hæstv. viðskrh. En um þetta finnst mér ekki ástæða til að þrátta frekar því ég er sannfærður um að við hv. þm. Sighvatur Björgvinsson erum sammála um að svona eigi málum ekki að vera skipað, að í eggjaframleiðslunni eigi að vera frjáls samkeppni bæði í framleiðslu, verðlagningu og markaðssetningu. Þessu þurfum við þar af leiðandi að breyta. Við gerum það ekki eins og VSÍ hefur lagt til með því að breyta skilgreiningu á landbúnaði. Við gerum það hins vegar með því að breyta lögum hér á hv. Alþingi. En þegar við gerum það þá verðum við að hafa nokkur atriði í huga. Í fyrsta lagi það að eggjaframleiðslan er hér á landi hjá okkur skattlögð atvinnugrein, gagnstætt því sem er í öðrum löndum þar sem hún er niðurgreidd og gagnstætt því sem á við um ýmsar aðrar landbúnaðargreinar hjá okkur sem eru einnig niðurgreiddar. Þetta á bæði við hvað varðar sjóðagjöldin og kjarnfóðurgjöldin. Þetta eru gjöld sem við þurfum að afnema og ég trúi því að hæstv. landbrh. sé nú þegar að undirbúa að svo geti orðið.

Eitt enn verðum við að hafa í huga. Það er að fóðuriðnaðurinn erlendis er gríðarlega niðurgreiddur, ekki bara hvað varðar hráefni heldur einnig hvað varðar fóðurblöndunina. Ég veit að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur skilning á því að við getum ekki látið setja okkar atvinnulíf þannig út af sakramentinu eins og hann sýndi þegar hann tók til sinna ráða hvað varðar skipasmíðaiðnaðinn. Þetta atriði verðum við einnig að hafa í huga þegar við gerum breytingar í átt til aukins frjálsræðis.