Samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 15:55:01 (3717)

1996-03-07 15:55:01# 120. lþ. 103.91 fundur 216#B samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:55]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sighvati Björgvinssyni fyrir að hafa vakið athygli á þessu máli. Það er ótvírætt í fyrsta lagi að eggjaverð er tvöfalt hærra hérlendis en annars staðar. Það er í öðru lagi ótvírætt að ekki fæst eðlilegur magnafsláttur í eggjaviðskiptum, í þriðja lagi að einokunarsamtök eru við lýði við eggjasölu, í fjórða lagi að búvörulög eru í mótsögn við samkeppnislög. Og í fimmta lagi að eggjabændur brjóta alvarlega og á ámælisverðan hátt gegn lögum. Það kemur fram, hv. þm. Árni M. Mathiesen, í úrskurði samkeppnisráðs.

Það sem er hins vegar athyglisverðast varðandi þetta mál er hvernig Sjálfstfl. lætur þetta viðgangast. Sjálfstfl. kennir sig stundum og talar fyrir frelsi í viðskiptum. En í reynd og það lýsir sér vel í þessu máli, er Sjálfstfl. laustengt hagsmunabandalag afturhaldsafla og framsóknarhyggju enda er afskaplega lítill munur á þessum tveimur flokkum í ríkisstjórn. Þetta mál er táknrænt og sýnir stefnu Sjálfstfl. í reynd. Sjálfstfl. kemur hér fram sem varðhundur kerfisins, verjandi einokunar og óeðlilegra viðskiptahátta. Hvað segja forustumenn Sjálfstfl. um þetta mál, ráðherrar Sjálfstfl.? Það er enginn þeirra viðstaddur. Hvað segir framkvæmdastjóri Verslunarráðs um þetta mál, um óréttmæta viðskiptahætti? Hann er ekki viðstaddur hér frekar en fyrri daginn.

Það sýnir sig nefnilega vel að Sjálfstfl. er kerfisflokkur í þessum málum sem öðrum. Hvaða hv. þm. Sjálfstfl. tóku upp gagnrýni í umræðu þegar það kom gagnrýni á Osta- og smjörsöluna, Mjólkursamsöluna og úreldingu Mjólkursamlagsins í Borganesi? Ekki einn einasti fyrir utan hv. þm. Árna M. Mathiesen. Og Sjálfstfl. hefur nokkuð lengi farið vel á því að vera með eina eða tvær fjarvistarsannanir þegar kemur að málum í umræðu en hann hefur ekki breytt sinni stefnu.

Mér finnst þetta mál lýsa því fyrst og fremst hvað Sjálfstfl. meinar raunverulega þegar hann talar um viðskiptafrelsi. Í þessu máli kemur greinilega fram efnahagsstefna Sjálfstfl. og það er mjög gott fyrir þjóðina að kynnast því hvernig hún er í reynd í þessu eggjasölumáli.