Samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 15:57:39 (3718)

1996-03-07 15:57:39# 120. lþ. 103.91 fundur 216#B samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:57]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Hví spyr ég ráðherra samkeppnis- og neytendamála? Ekki síst vegna þess að á bls. 11 segir svo í niðurstöðum samkeppnisráðs, með leyfi hæstv. forseta:

,,Félag eggjaframleiðenda hefur haft skýran og einbeittan vilja til þess að ræða, stuðla að og framkvæma aðgerðir sem hvað alvarlegastar þykja jafnt í íslenskum sem erlendum samkeppnisrétti.``

Það er þessi ráðherra sem fer með neytendamál og samkeppnismál. Þess vegna spyr ég hann.

Hv. þm. spurði: Hvernig stóð á því að sá sem hér stendur tók ekki á málinu í sinni viðskiptaráðherratíð? Vegna þess að niðurstaða samkeppnisráðs, þar sem m.a. eru raktar tilvitnanir úr fundargerðum Félags eggjaframleiðenda, kemur ekki fyrir mínar sjónir fyrr en föstudaginn 16. febr. sl. Mér var ekki kunnugt um það að á vegum félagsins hefðu staðið yfir jafnósvífnar tilraunir til þess að koma í veg fyrir að eðlilegt frjálsræði gæti orðið í eggjaviðskiptum. Mér var ekki heldur kunnugt um að þeir létu bóka í fundargerðir sínar að menn séu almennt sammála um að vel hafi gengið að ná upp verði á eggjum.

Það er ekki ástæðulaust að verð á eggjum er hér tvöfalt hærra en í nágrannalöndunum. Þessar samkeppnishindranir eiga sinn þátt í því að lokum. Ég bendi mönnum á að samkeppnisráð telur fullar ástæður liggja til að beita sektum við brotum á samkeppnislögum vegna þessa athæfis en lætur það vera vegna þess að Samkeppnisstofnun lýsir því yfir að félagið virðist annaðhvort ekki hafa þekkt lögin eða skilið þau. Það er þá nýtt ef menn geta sloppið við sektir út á það að menn séu annaðhvort ekki það meðvitaðir að þeir lesi lög eða ekki það skilningsglöggir að þeir skilji þau. Það er þá verið að segja nýjar reglur í íslensku réttarfari.

Auðvitað er einfaldast og átakaminnst að koma á, virðulegi forseti, eðlilegri samkeppni um egg og alifuglaafurðir með því að gera þá einföldu breytingu á búvörulögunum að fella þessa framleiðslu undan búvörulögum enda á hún afskaplega lítið skylt við t.d. hefðbundna sauðfjárrækt á Íslandi.

Ég og aðrir þingmenn Alþfl. höfum í dag lagt fram hér á Alþingi frv. um að slík breyting verði gerð. Það er rétta leiðin til þess að tryggja eðlilega samkeppni í þessari atvinnugrein sem alifuglaræktin er og neytendum hér á Íslandi sambærilegt verð fyrir þessar afurðir miðað við það sem neytendur í nágrannalöndunum borga.