Samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 16:01:10 (3719)

1996-03-07 16:01:10# 120. lþ. 103.91 fundur 216#B samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[16:01]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Af málflutningi hv. þm. Ágústs Einarssonar mætti helst halda að Sjálfstfl. væri einhver stærsti eggjaframleiðandi á Íslandi. Því er nú ekki að heilsa. (Gripið fram í: Það eru of margir kjúklingar í honum.) Langstærstur hluti ræðu hans fjallaði um Sjálfstfl. en ekki það málefni sem hér er til umræðu. Ég verð hins vegar að segja að gagnrýni hans á það að eitthvað vanti upp á málflutning sjálfstæðismanna í frjálsræðisátt verður léttvæg fundin á meðan hann og hans þingflokkur og formaður hans flokks getur ekki svarað því á Alþingi hvort Þjóðvaki ætli sér að styðja svo sjálfsagt mál í frjálsræðisátt í viðskiptalífi þjóðarinnar eins og að gera Póst og síma að hlutafélagi.

Það gerðist í umræðum í síðustu viku að formaður Þjóðvaka var spurður að þessu beinlínis og hún margvék sér undan því að svara þessari spurningu. Á meðan ekki er hægt að svara svo einföldum spurningum af hálfu flokksins, verður gagnrýni á aðra fyrir það að standa ekki nógu þétt að auknu frjálsræði í þjóðfélaginu léttvæg fundin.