Samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 16:04:26 (3721)

1996-03-07 16:04:26# 120. lþ. 103.91 fundur 216#B samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[16:04]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Mér finnst hafa örlítið borið við í þessari umræðu að menn haldi að hér séu einhverjir hlutir að gerast sem þeir hafi ekki í raun og veru vitað um, þ.e. að það sé allt í einu að koma í ljós núna að verðlagning á eggjum falli ekki undir samkeppnislög. Það er af og frá vegna þess að það var ákveðið með lögunum um sölu, framleiðslu og verðlagningu búvara árið 1993 að eggin, ásamt öðrum landbúnaðarafurðum, skyldu falla utan samkeppnislaganna.

Það kom líka skýrt fram þegar mælt var á sínum tíma fyrir samkeppnislögunum af þáv. hæstv. viðskrh. að landbúnaðurinn stæði utan þeirra. Það er því vilji þingsins sem hefur komið fram í þessum efnum að undanförnu. (Gripið fram í: Og allir sammála.) Og allir hafa verið því sammála, það held ég að sé rétt hjá hv. þm.

Varðandi það sem kom fram hjá hv. málshefjanda, Sighvati Björgvinssyni, um refsingarnar, þá er það svo, hv. þm., að Félag eggjaframleiðenda hefur ekki verið með neitt leynimakk í þessum efnum. Mat mitt er, eftir að hafa lesið þessa skýrslu, að þeim hafi í raun ekki verið lögin betur kunn en fram kemur. Staðreyndin er sú að þetta hefur alltaf verið gert fyrir opnum tjöldum, þrátt fyrir fundargerðir sem hv. þm. vitnaði til. 20. júní 1994, í tíð hæstv. þáv. viðskrh., skrifar Félag eggjaframleiðenda bréf. Það var ekki sent í ráðuneytið, en þetta var gert fyrir opnum tjöldum, menn voru engu að leyna. Bréf félagsins er til allra framleiðenda og skipta þeir þar markaðnum á milli sín. Ég held því að í raun hafi félaginu ekki verið þetta betur kunnugt.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að menn verði að halda uppi samkeppni vegna þess að hún kemur neytendum til góða. Við verðum líka að passa okkur á því, eins og kemur skýrt fram í þessari skýrslu, að hin mikla samkeppni getur líka leitt til einokunar þegar upp er staðið, þ.e. þegar menn eru komnir út í það að selja langt undir framleiðslukostnaðarverði. Eitt af því sem nú er verið að skoða í ráðuneyti viðskiptamála er hvernig að þeim hlutum er staðið.

Það kom fram að það væri nauðsynlegt að taka verðlagsmál landbúnaðarins upp og ég held að hæstv. landbrh. hafi áður lýst því yfir við svipaða umræðu að það stæði til að gera það og hann væri tilbúinn til þess að skoða þá hluti.