Erfðabreyttar lífverur

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 16:26:04 (3723)

1996-03-07 16:26:04# 120. lþ. 103.7 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[16:26]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra er sáttur við breytingartillögurnar sem liggja fyrir og þær áherslubreytingar sem orðið hafa í meðförum nefndarinnar. Það eru tvö atriði sem ég vildi nefna. Það er í fyrsta lagi varðandi afurðir erfðabreyttra lífvera og umfjöllun málsins á vettvangi EES-kerfisins. Þar held ég að hæstv. ráðherra þyrfti að hafa hröð handtök hugsanlega til þess að koma sínum áherslum á framfæri ef það er þá ekki orðið um seinan. En það kemur manni spánskt fyrir sjónir ef þarna eru teknar ákvarðanir af talsmanni Íslands á viðkomandi stað í kerfinu sem ég veit ekki hver er, sem ekki hafa verið bornar undir íslensk stjórnvöld, ríkisstjórn eða viðkomandi ráðuneyti. Mér finnst mjög uggvænlegt satt að segja ef slíkt gerist í svo mikilvægu máli og hér um ræðir. Þar sem um er að ræða stórt mál sem snertir fjöldann, almenning og um er að ræða aðrar áherslur en uppi eru hjá stjórnvöldum Norðurlanda, a.m.k. í þremur löndunum að því er mér virðist. Ég vildi aðeins nefna þetta hér til að ýta á eftir því af minni hálfu og ég heyri á hæstv. ráðherra að hann er alveg sammála um efnisatriðið. Ég fagna því viðhorfi sem fram kom hjá hæstv. ráðherra.

Síðan vildi ég, virðulegur forseti, nefna að auki fjárhagsstöðu og starfsaðstöðu Hollustuverndar ríkisins. Ég hafði skilið það svo að það væri að vænta úrlausna og einnig fjárhagslegra úrlausna í kjölfar vinnu þeirrar nefndar sem sett var á fót í tengslum við undirbúning fjárlaga. Ástæðan fyrir því að ekki var orðið við og ekki urðu undirtektir við brtt. sem ég m.a. flutti til að reyna að bæta örlítið úr mjög erfiðri stöðu nefndarinnar, var eiginlega sá skilningur minn og ég hygg fleiri að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því og hefði í raun áskilnað um það að þarna væri hægt að auka við fjármagn til stofnunarinnar á þessu ári því að það er augljóslega knýjandi nauðsyn vegna þeirra fjölmörgu verkefna sem eru í undandrætti hjá stofnuninni og henni er lagalega skylt að sinna en hefur ekki haft aðstöðu til eins og ég m.a. rakti þegar fjárlagafrv. var til umræðu. Ég vil inna hæstv. ráðherra nánar eftir þessu því að það er langt að bíða næsta árs til að taka betur á mörgum málum sem þarna bíða.