Erfðabreyttar lífverur

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 16:29:59 (3724)

1996-03-07 16:29:59# 120. lþ. 103.7 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[16:29]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara segja um þessa tvo þætti sem hv. 4. þm. Austurl. ítrekaði að hafi einhver boð út gengið nú nýlega um afstöðu mína, ráðuneytisins eða stjórnvalda varðandi merkingar á afurðum erfðabreyttra lífvera, hafa orðið þar einhver mistök á að mér skyldi ekki vera gerð grein fyrir því. Á hinn bóginn vona ég reyndar að það sé lengra um liðið síðan slík boð hafa verið send en að það hafi yfirleitt verið í minni tíð. Ég vil a.m.k. álíta svo þar til annað kemur í ljós.

Varðandi Hollustuvernd og stöðu hennar er rétt hjá hv. þm. að við höfðum og höfum kannski enn vonir eða væntingar um að niðurstaða nefndarinnar geti leitt til þess að hægt sé að sannfæra menn um að það þurfi hið fyrsta að taka á fjármálum stofnunarinnar og það megi ekki bíða næsta árs. Við höfum sérstaklega verið að skoða í þessu efni hvaða möguleika stofnunin hefur til að auka sértekjur sínar. Hún er nú að fá ýmiss konar þjónustuverkefni við eftirlit með innflutningi og fleira slíkt sem ég álít að geti aflað henni aukinna sértekna. Ég tala hér með fyrirvara þar til nefndarálitið liggur fyrir, en hugsanlega gæti þetta leyst eitthvað úr hennar fjárhagsvanda og skapað henni betri starfsaðstöðu.

Í öðru lagi er ekki útilokað að upp komi sú staða að menn telji nauðsynlegt að taka á málum hennar með fjáraukalögum en ekki hafa verið gefin nein fyrirheit um það. Svo kann að fara að það bíði fjárlagagerðar næsta árs en ég vænti þess að við vitum betur um stöðuna þegar við höfum fengið nefndarálitið. Stefnt er að því að það liggi fyrir ekki seinna en í maímánuði. Niðurstaða eða úttekt sérfræðinga sem vinna nú í stofnuninni átti samkvæmt áætlun að liggja fyrir í mars og átti nefndin síðan að ljúka störfum sínum ekki seinna en í maí.