Náttúruvernd

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 16:38:11 (3726)

1996-03-07 16:38:11# 120. lþ. 103.9 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[16:38]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um náttúruvernd sem flutt er á þskj. 642 og er 366. mál þingsins. Frv. felur í sér verulegar breytingar á stjórn náttúruverndarmála auk nokkurra minni háttar efnisbreytinga á lögum um náttúruvernd.

Lengi hefur verið talið brýnt að endurskoða lög um náttúruvernd. Ég taldi rétt að skipta þeirri endurskoðun í tvennt, þ.e. að láta annars vegar endurskoða stjórnskipulag náttúruverndarlaganna og hins vegar lögin í heild sinni og þar með efnisatriði þeirra. Í samræmi við þessa stefnu fól ég starfshópi undir formennsku aðstoðarmanns míns, Guðjóns Ólafs Jónssonar, að endurskoða stjórnskipan náttúruverndarmála. Auk hans áttu sæti í hópnum Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhvrn., og hv. þingmenn Valgerður Sverrisdóttir og Árni M. Mathiesen. Starfshópurinn lagði til ýmsar breytingar á stjórn náttúruverndarmála og gerði það að tillögu sinni að lagt yrði fyrir Alþingi nýtt frv. til náttúruverndarlaga og lagði fram drög að því. Hópurinn lagði áherslu á það í störfum sínum að ná sem víðtækastri samstöðu um breytingarnar og er frv. m.a. unnið í góðri samvinnu við forsvarsmenn Náttúruverndarráðs og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Þær breytingar sem hér eru lagðar til á stjórn náttúruverndarmála þykja það viðamiklar og snerta að auki flestar greinar gildandi laga þannig að til einföldunar og skilningsauka er lagt fram heildstætt frv. til nýrra náttúruverndarlaga. Frv. snýr þó, eins og ég hef áður greint, einkum að stjórnskipulagi náttúruverndarmála en ekki að efnisatriðum náttúruverndarlaga og reglna um náttúrvernd. Ég vil biðja hv. þm. og hv. umhvn. að hafa þetta í huga við meðferð málsins hér á þingi að þessu sinni.

Ég vil einnig taka fram að með þessu er ekki horfið frá því að endurskoða lögin í heild sinni eins og ég mun koma nánar að síðar.

Allt frá því að sérstakt umhvrn. var stofnað árið 1990 hefur verið lögð áhersla á að laga yfirstjórn og frumkvæði náttúruverndarmála að stofnun þess. Gildandi lög um náttúruvernd eru nr. 47/1971 og eru þau að stofni til frá árinu 1956 en það ár voru fyrstu almennu lögin um náttúruvernd sett hér á landi. Endurskoðun á gildandi lögum um náttúruvernd frá 1971 hefur staðið yfir um alllangt skeið. Þáverandi menntmrh. lagði fram á 107. löggjafarþingi 1984--1985 frv. til nýrra náttúruverndarlaga sem samið var að tilstuðlan náttúruverndarþings og Náttúruverndarráðs. Á 117. löggjafarþingi 1993--1994 var lagt fram frv. til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd þar sem yfirstjórn náttúruverndarmála var löguð að stofnun umhvrn. og ýmis verkefni færð til þess frá Náttúruverndarráði. Jafnframt voru lagðar til nokkrar breytingar á efnisatriðum laganna. Samkvæmt frv. átti sérstök stofnun, Landvarsla ríkisins, að taka við rekstrarhlutverki Náttúruverndarráðs. Átti stofnunin að annast rekstur þjóðgarða og umsjón friðlýstra svæða og náttúruverndarminja, hafa almennt eftirlit með náttúru landsins og forgöngu um fræðslu. Samkvæmt frv. átti að halda náttúrverndarþing annað hvert ár og skyldi það m.a. kjósa fulltrúa í náttúruverndarráð. Ráðið átti að marka stefnu í náttúruverndarmálum, stuðla að almennri náttúruvernd og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um náttúruverndarmál svo eitthvað sé nefnt. Frv. þetta varð ekki að lögum en var lagt fram að nýju á 118. löggjafarþingi 1994, að mestu óbreytt. Þó voru lagðar til verulegar breytingar á hlutverki Náttúruverndarráðs og ekki gert ráð fyrir að ráðið færi með stjórnsýslu á vegum ríkisins. Það frv. varð heldur ekki að lögum.

Frv. það sem ég mæli hér fyrir og grg. með því er að nokkru byggt á þessum fyrri frv. og þeim grg. sem þeim fylgdu. Þá hefur verulegt tillit verið tekið til umsagna og nefndarálita sem fram komu við meðferð þeirra á þingi. Ég vil þó ítreka það sem ég sagði áðan að til skilningsauka og einföldunar hef ég kosið að leggja fram heildstætt frv. í stað frv. til breytinga á núgildandi náttúruverndarlögum.

Þá er það mat mitt að frv. sé betur úr garði gert nú en áður var, vandaðra og betur unnið. Má sem dæmi nefna að nú eru lagðar til breytingar á sex öðrum lögum auk gildandi náttúruverndarlaga, allt til að gæta samræmis um breytingar á stjórn náttúruverndarmála sem ég mun nánar fjalla um síðar.

Þá var við undirbúning frv. haft samráð við ýmsa aðila er vinna að náttúruverndarmálum, eins og ég greindi frá áðan. Með frv. þessu eru lagðar til verulegar breytingar á stjórn náttúruverndarmála. Kveðið er skýrt á um yfirstjórn umhvrh. Undir hans yfirstjórn kemur til ný ríkisstofnun, Náttúruvernd ríkisins, og munu verkefni Náttúruverndarráðs færast til þeirrar stofnunar og ráðherra. Ráðið verður hins vegar ráðherra til ráðgjafar og mun fjalla um allt það er lýtur að náttúruverndarmálum. Eins og áður sagði er í frv. skýrt kveðið á um yfirstjórn umhvrh. yfir málaflokknum og mun hin nýja stofnun, Náttúruvernd ríkisins, starfa undir yfirstjórn hans. Ráðherra mun skipa stofnuninni fimm manna stjórn og jafnframt forstjóra til fimm ára í senn. Hann mun og skipa sex af níu mönnum í Náttúruverndarráð og boða til náttúruverndarþings í stað Náttúruverndarráðs eins og nú er. Umhvrh. mun og fara með heimild til setningar reglugerða, staðfestingar ýmiss konar samninga, ákvörðunarvald um friðlýsingu, stofnun fólkvanga og þjóðgarða og útgáfu náttúruminjaskrár. Náttúruvernd ríkisins mun að öðru leyti taka við daglegum rekstri og verkefnum Náttúruverndarráðs. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að ráðherra skipi stofnuninni fimm manna stjórn að loknum alþingiskosningum, þar af einn samkvæmt tilnefningu Náttúruverndarráðs og einn samkvæmt tilnefningu samgrh., en telja verður eðlilegt að hann sem yfirmaður ferðamála tilnefni einn mann í stjórnina enda vaxandi þörf fyrir enn frekari samvinnu ferðamála og náttúruverndaryfirvalda. Stjórninni er ætlað að fara með yfirstjórn Náttúruverndar ríkisins, fjalla um starfs- og fjárhagsáætlanir og hafa eftirlit með fjárreiðum og ráðstöfun fjár. Í umboði stjórnar fer forstjóri stofnunarinnar með daglega stjórn hennar.

Í 5. gr. frv. er kveðið mjög ítarlega á um hlutverk Náttúruverndar ríkisins. Stofnuninni er ætlað að annast umsjón, rekstur og eftirlit með náttúruverndarsvæðum, svo og eftirlit með því að náttúru landsins sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit er ekki falið öðrum með sérstökum lögum.

[16:45]

Þá skal stofnunin hafa eftirlit með umferð og umgengni í óbyggðum, sjá um undirbúning að friðlýsingu svæða og hafa umsjón með gerð verndaráætlana fyrir náttúruverndarsvæði og skráningu náttúruminja. Enn fremur ber Náttúruvernd ríkisins að hafa umsjón með gerð skipulagsáætlana fyrir náttúruverndarsvæði í hennar umsjá í samráði við skipulagsstjóra ríkisins.

Þá verður það hlutverk stofnunarinnar að sjá um fræðslu og rekstur gestastofu á náttúruverndarsvæðum, svo og almenna fræðslu og álitsgerð vegna meiri háttar framkvæmda og rekstrar. Jafnframt skal Náttúruvernd ríkisins, vitanlega í samráði við Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins, vinna að og hafa eftirlit með friðunar- og uppgræðsluaðgerðum á sviði gróður- og skógverndar, samanber 18. gr. frv. Þá er gert ráð fyrir að stofnunin skili skýrslum til ráðherra um ástand náttúruverndarsvæða í hennar umsjá og sinni öðrum störfum að náttúruvernd eftir því sem ráðherra kann að ákveða hverju sinni.

Í frv. er að finna ákvæði um umsjón og rekstur friðlýstra svæða, rekstur þjóðgarða, sérstakt ákvæði um gestastofur sem er nýmæli og um framkvæmd eftirlits. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega vekja athygli á þremur atriðum sem eru í samræmi við stefnu mína og ríkisstjórnarinnar um að flytja ábyrgð á stjórn náttúruverndarmála í auknum mæli heim í hérað.

Í fyrsta lagi er kveðið á um heimild til handa Náttúruvernd ríkisins til að fela einstaklingum eða lögaðilum umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða annarra en þjóðgarða. Um það skal gera sérstakan samning sem ráðherra staðfestir þar sem m.a. skal kveða á um réttindi og skyldur samningsaðila, framkvæmdir, landvörslu, móttöku ferðamanna, fræðslu- og þjónustugjöld, svo eitthvað sé nefnt.

Í öðru lagi er Náttúruvernd ríkisins heimilt að fela sveitarfélögum eða héraðsnefndum umsjón og rekstur gestastofa á náttúruverndarsvæðum.

Í þriðja lagi er stofnuninni heimilt með samningi að fela náttúrustofum sveitarfélaga og náttúruverndarnefndum sveitarfélaganna að annast eftirlit með náttúru landsins. Gert er ráð fyrir að umhvrh. þurfi að staðfesta samninginn en í honum verði m.a. kveðið á um greiðslur fyrir eftirlitið, menntun eftirlitsmanna, skýrslugerð og fleira sem máli skiptir.

Í frv. eru lagðar til verulegar breytingar á skipan og starfsháttum Náttúruverndarráðs. Samkvæmt núgildandi lögum sitja sjö manns í ráðinu. Af þeim skipar ráðherra eingöngu formann, en sex eru kjörnir á náttúruverndarþingi. Sama regla gildir um varamenn. Ráðið fer eigi að síður með margs konar stjórnsýslu á vegum ríkisins. Verði frv. þetta að lögum mun ráðið ekki annast neina stjórnsýslu á þess vegum, heldur vera ráðherra til ráðgjafar, gangast fyrir ráðstefnum og opinni umræðu um náttúruverndarmál og stuðla að almennri náttúruvernd. Daglegur rekstur og verkefni Náttúruverndarráðs mun, eins og áður sagði, færast til Náttúruverndar ríkisins.

Gert er ráð fyrir að Náttúruverndarráð verði í framtíðinni skipað níu mönnum til tveggja ára í senn í stað fjögurra ára eins og nú er. Umhvrh. kemur til með að skipa sex í upphafi náttúruverndarþings, fimm að fengnum tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands, Háskóla Íslands, Bændasamtaka Íslands, Ferðamálaráðs og skipulagsstjóra ríkisins og formann sérstaklega án tilnefningar. Þrír skulu hins vegar kosnir af Náttúruverndarþingi. Skipan og kosning varamanna verður með sama hætti.

Rétt er að taka fram að ekki er gert ráð fyrir sérstakri skrifstofu eða framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs eins og lagt var til í frv. til breytinga á lögum um náttúruvernd sem lagt var fyrir Alþingi á 118. löggjafarþinginu. Í frv. er lagt til að umhvrh. boði til náttúruverndarþings tvisvar á kjörtímabili. Í fyrra skiptið að loknum alþingiskosningum eða í upphafi kjörtímabils og svo tveimur árum síðar. Með þessu gefst ráðherra kostur á að kynna þeim hagsmuna- og áhugaaðilum sem sinna náttúruvernd stefnu sína á þessu sviði í upphafi kjörtímabils og ræða um framgang hennar og annarra mála á því miðju.

Samkvæmt gildandi lögum boðar Náttúruverndarráð til þingsins þriðja hvert ár. Í frv. er gert ráð fyrir að Náttúruverndarráð undirbúi náttúrverndarþing og leggi fyrir það skýrslu um störf sín. Þingið er umræðuvettvangur hinna ýmsu aðila sem fjalla um náttúruverndarmál og er því ætlað að fjalla um náttúruvernd frá ýmum sjónarmiðum auk þess að kjósa þrjá fulltrúa í Náttúruverndarráð svo sem áður er getið.

Í 14.--25. gr. frv. er að finna ýmis ákvæði um aðgang almennings að náttúru landsins, umgengni, framkvæmdir o.fl. Ákvæði þessi eru að mestu samhljóða 11.--20. gr. og 29. gr. gildandi laga, þó þannig að Náttúruvernd ríkisins og umhvrh. taka eftir atvikum við þeim verkefnum sem Náttúruverndarráði er falið samkvæmt gildandi lögum. Breytingar þessar skýra sig að mestu sjálfar og ég sé ekki ástæðu til að fjalla um þær sérstaklega í þessari framsöguræðu.

Í 26.--28. gr. frv. er fjallað um friðlýsingar og í 29. gr. um stofnun þjóðgarða. Eðlilegt er eftir stofnun sérstaks umhvrn. að umhvrh. fari með heimild til friðlýsingar. Samkvæmt frv. nær heimild þessi til friðlýsingar sérstæðra náttúrumyndana, lífvera, búsvæða þeirra og vistkerfa og landsvæða. Ráðherra ber þó áður að leita tillagna eða álits Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs og verður að telja eðlilegt að leita umsagnar þessara aðila áður en ákvörðun um friðlýsingu er tekin.

Sömu sögu er að segja um stofnun þjóðgarða. Í frv. er gert ráð fyrir því sem meginreglu að landsvæði þjóðgarða verði í eigu ríkisins nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli ráðherra og landeigenda. Samkvæmt gildandi lögum skal landsvæði skilyrðislaust vera í eigu ríkisins, þ.e. landsvæði sem er innan þjóðgarða.

Samkvæmt 32. gr. frv. skal umhvrh. gefa út náttúruminjaskrá í stað Náttúruverndarráðs eins og nú er. Gert er ráð fyrir að skráin komi út fjórða hvert ár, þ.e. einu sinni á kjörtímabili í staðinn fyrir þriðja hvert ár eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Náttúruvernd ríkisins mun í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands annast öflun gagna í skrána og undirbúa útgáfu hennar. Náttúruverndarráð skal fjalla um náttúruminjaskrá fyrir útgáfu. Nánari ákvæði um skráningu náttúruminja mun ráðherra setja í reglugerð.

Af öðrum ákvæðum frv. vil ég vekja athygli á 35. gr. Þar er fjallað um svokölluð þjónustugjöld. Samkvæmt greininni getur Náttúruvernd ríkisins ákveðið gjald fyrir veitta þjónustu stofnunarinnar og aðgang að náttúruverndarsvæðum þar sem spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum. Tekjum sem aflað er með þessum hætti skal varið til eftirlits, lagfæringar eða uppbyggingar á sama svæði og þeirra var aflað.

Í 41. gr. frv. eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem nauðsynlegt er að gera til samræmis við þær breytingar sem gert er ráð fyrir að verði á stjórn náttúruverndarmála. Þessar breytingar varða lög um bann gegn jarðraski, nr. 123/1940, lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 36/1974, lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992, lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, lög um skipulag ferðamál, nr. 17/1994, og lög um vernd Breiðafjarðar, nr. 54/1995. Samkvæmt frv. mun Náttúruvernd ríkisins taka við því hlutverki og þeim verkefnum sem Náttúruverndarráð sinnir í dag.

Í frv. er gert ráð fyrir að hin nýju lög taki gildi 1. janúar 1997. Frá sama tíma falla úr gildi núgildandi lög um náttúruvernd, nr. 47/1971. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða mun umhvrh., ef frv. þetta verður samþykkt sem lög á Alþingi, þegar skipa stjórn Náttúruverndar ríkisins sem hefjast mun handa við að undirbúa starfsemi stofnunaninnar. Jafnframt er ætlunin að fyrsta náttúruverndarþing samkvæmt lögunum verði haldið í janúar 1997. Ráðherra mun boða til þingsins en undirbúningur þess verður í höndum þess Náttúruverndarráðs sem þá er gert ráð fyrir að láti af störfum, þ.e. þess Náttúruverndarráðs sem nú situr.

Eins og ég hef áður sagt tel ég brýnt að efnisatriði laga um náttúruvernd verði endurskoðuð hið fyrsta. Enn brýnna er þó að ná samkomulagi um stjórnskipan náttúruverndarmálanna eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Þess vegna er í frv. þessu lítið um efnisbreytingar á gildandi lögum. Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um heildarendurskoðun laganna innan tveggja ára frá gildistöku, þ.e. fyrir 1. jan. 1999. Ég mun því á næstu dögum leita eftir tilnefningum í nefnd til þess að vinna að þessu verkefni. Í henni hef ég hug á að sitji m.a. fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, Náttúruverndarráðs, Sambands ísl. sveitarfélaga, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Bændasamtakanna og umhvrn. Nefndinni er ætlað að skila mér tillögum sínum fyrir áðurgreindan tíma og stefni ég að því að leggja fram á Alþing heildstætt frv. til nýrra náttúruverndarlaga fyrir lok þessa kjörtímabils. Það er að sjálfsögðu hv. Alþingis að taka ákvörðun um hvort það treystir sér til að lögfesta það, en ég tel að það sé orðið brýnt að gera það svo fljótt sem auðið verður.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið helstu atriði þessa frv. til náttúruverndarlaga og leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. umhvn.