Náttúruvernd

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 17:46:02 (3730)

1996-03-07 17:46:02# 120. lþ. 103.9 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[17:46]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er aðeins örstutt. Út af fyrir sig ætla ég ekki að taka upp aftur það sem við erum búin að tala um áður eins og í sambandi við tilnefningar og stjórnunarþættina og þau mál en það voru tvö atriði sem komu fram í lok máls hv. þm. Það var annars vegar spurningin um þjóðgarðana á landi sem ekki er í ríkiseign. Ég tel að þetta geti í mörgum tilfellum verið til bóta, nauðsynlegt í sumum tilvikum til þess að koma á þeirri friðlýsingu sem menn vildu gjarnan og teldu nauðsynlega en eiga í erfiðleikum með að öðru leyti vegna sérstakra aðstæðna. En mér er ljóst að þetta er erfitt ákvæði í framkvæmd. Það verður erfitt að framkvæma það og þarf að ganga mjög vel frá hnútunum til þess að það lendi ekki í einhverjum erfiðleikum síðar. Ég held að það sé til bóta að hafa þennan möguleika. Ég er ekki að segja að það eigi almennt að hafa það svo eða nýta hann, ég held að hitt eigi að vera meginreglan. Mér er ljóst að þar sem svo kann að vera að einkaeign er á landi eða landshluta innan þjóðgarða þá þarf að ganga mjög vel frá þeim málum.

Hitt var ákvæðið um gjaldtökuna. Við verðum sennilega að eiga orðaskipti um það betur síðar við hv. þm. því ég veit að hann getur ekki svarað mér en mér var ekki alveg ljóst hvað hann var að fara, hvort hann er almennt á móti því að gjald sé tekið fyrir notkun, umgengni um land eða notkun. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við ættum að taka gjald af notendum. Ég veit ekki hvort það er rétt að segja notendur, þ.e. ferðamenn og aðrir þeir sem fara um landið og ganga um viðkvæma staði sem nauðsynlegt er að leggja í töluverðan kostnað við að varðveita og halda í lagi. Mér finnst eðlilegt og nauðsynlegt að við heimilum gjaldtöku í slíkum tilvikum. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og er það áfram. Um formið á þessu getum við sjálfsagt rætt eitthvað nánar. Það eru þessi ströngu ákvæði um að til þess að það verði ekki skattur þá megi aldrei innheimta nema til þess að láta það renna til þess sama svæðis sem verið er að innheimta gjaldið af þannig að það sé verið að greiða fyrir þá þjónustu sem þar er veitt eða vörslu á því landi sem um er að ræða. Það þrengir þessa stöðu mjög frá því sem ég gæti hugsað mér persónulega að sjá, en mér er alveg ljóst hitt viðhorfið, að gjaldtaka umfram það sem varðar viðkomandi svæði og kostnað af því getur samkvæmt skilgreiningu flokkast sem skattheimta og þar torveldar það okkur málið. Ég ætla að láta þetta duga núna, hæstv. forseti.