Náttúruvernd

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 17:51:25 (3732)

1996-03-07 17:51:25# 120. lþ. 103.9 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[17:51]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins örstutt um gjaldtökuákvæðin. Það verður að sjálfsögðu skoðað í nefndinni hvernig að þessum málum er hægt að standa eða hver vilji manna er til þess. Ég ítreka mína skoðun á því að það sé eðlilegt að við innheimtum í ákveðnum tilvikum gjald fyrir í fyrsta lagi þá þjónustu sem verið er að veita og í öðru lagi til þess að geta staðið straum af kostnaði að einhverju leyti við þau svæði sem um er að ræða. Það er mitt viðhorf og ég þarf ekkert að bæta við það sem ég sagði áðan í því efni.

Síðan aðeins varðandi þessa skammstöfun. Ég hef að vísu orðið var við það í umhverfismálunum almennt að það er nánast óskiljanlegur frumskógur af allslags skammstöfunum á hinum ýmsu stofnunum sem við eigum aðild að og tökum þátt í alþjóðasamstarfi og það er til þess fallið að flækja hvern einasta heilvita mann og menn eiga erfitt með að fóta sig og rata um þann frumskóg. Ég veit ekki hvaðan þessi hugmynd eða nafngift er komin og mér finnst þessi aðferð ekki skemmtileg, hvort sem það er nú VSÍ eða ASÍ eða NVRR eða hvað það nú annað er, eða BSRB af því að ég sé að hv. þm., sem jafnframt er formaður þeirra samtaka er hér staddur hjá okkur. Ég er ekki að gera lítið úr þessu öllu saman, auðvitað er það oft til hægðarauka að stytta löng nöfn en þetta er ekki sérlega skemmtilegt.