Sameining ríkisviðskiptabanka

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 15:07:10 (3733)

1996-03-11 15:07:10# 120. lþ. 104.1 fundur 217#B sameining ríkisviðskiptabanka# (óundirbúin fsp.), SvG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[15:07]

Svavar Gestsson:

Virðulegur forseti. Núna síðustu sólarhringana hefur það komið fram hjá formanni bankastjórnar Landsbankans að það væri hans skoðun að miðað við stöðuna í bankakerfinu um þessar mundir væri skynsamlegast til að ná fram ýtrustu hagræðingu að stefna að því að sameina ríkisbankana tvo, þ.e. Landsbankann og Búnaðarbankann. Þetta sjónarmið formanns bankastjórnar Landsbankans er í samræmi við sjónarmið sem við alþýðubandalagsmenn höfum sett fram á undanförnum árum. Fyrsta ástæðan er sú að við teljum að með þessu móti mætti ná fram meiri hagræðingu og sparnaði í bankakerfinu. Önnur ástæðan er sú að við teljum að með þessu móti yrði til sterkur banki í hinu alþjóðlega peningakerfi. Í þriðja lagi teljum við að með þessu móti mætti um leið og bankarnir sameinuðust taka á stjórnunarvanda Landsbankans og Búnaðarbankans. Í fjórða lagi teljum við að það væri beinlínis rangt út frá hagsmunum eigandans, þ.e. þjóðarinnar, að selja þessa banka hvorn í sínu lagi eins og menn hafa verið að tala um að undanförnu. Ég vil af þessum ástæðum, vegna þessara sjónarmiða, hæstv. forseti, beina þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. hver sé hans skoðun á þessum viðhorfum og hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að málið verði unnið á þessum grundvelli, þ.e. stefnt að hagstæðustu og skynsamlegustu lausninni miðað við allar aðstæður bæði í efnahags- og bankakerfi Íslendinga.