Sameining ríkisviðskiptabanka

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 15:08:51 (3734)

1996-03-11 15:08:51# 120. lþ. 104.1 fundur 217#B sameining ríkisviðskiptabanka# (óundirbúin fsp.), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[15:08]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Sl. sumar skipaði ég nefnd í samræmi við stjórnarsáttmálann sem fékk það hlutverk að undirbúa formbreytingu beggja ríkisviðskiptabankanna, þ.e. Landsbankans og Búnaðarbanka Íslands. Undanfari þess var sá að ég átti í viðræðum við fulltrúa bankaráðanna í báðum bönkunum, starfsfólk beggja bankanna og bankastjóra beggja bankanna, þar sem við komumst að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að það væri best að hafa fámennan hóp til að undirbúa verkið en í góðu samstarfi við þessa aðila. Nefndin er skipuð fulltrúa viðskrh., sem er Gunnlaugur Sigmundsson, fulltrúa úr Seðlabankanum, sem er Birgir Ísleifur Gunnarsson seðlabankastjóri, og formaður þingflokks Sjálfstfl., Geir H. Haarde. Þessi nefnd er að störfum og mun innan tíðar skila sínum tillögum. Ég veit ekki nákvæmlega hverjar hennar tillögur verða en ég er þeirrar skoðunar, af því að hv. þm. spyr hver sé mín afstaða til þessa máls, að við eigum að halda málinu í þessum farvegi, undirbúa hlutafjárvæðingu hvors bankans fyrir sig, gera þá að hlutafélögum, það er óbreytt áform ríkisstjórnarinnar um að koma þessum frv. fram á þessu þingi og að hlutafélagabankar í eigu ríkisins geti tekið til starfa um næstu áramót. Ég tel að þetta sé besti framgangur málsins og að í þessum farvegi eigi að halda því þar sem málið hefur verið undirbúið á þessum grunni í samvinnu við starfsfólkið og í samvinnu við bankaráð beggja bankanna og bankastjórnirnar.