Sameining ríkisviðskiptabanka

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 15:11:55 (3736)

1996-03-11 15:11:55# 120. lþ. 104.1 fundur 217#B sameining ríkisviðskiptabanka# (óundirbúin fsp.), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[15:11]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Af því að hv. þm. vitnaði í formann bankastjórnar Landsbankans í ræðu hans á ársfundi bankans sl. föstudag þá held ég að hv. þm. hafi misskilið formann bankastjórnarinnar vegna þess að formaður bankastjórnarinnar gekk út frá því að bankarnir yrðu gerðir að hlutafélögum en þeir yrðu sameinaðir í einu hlutafélagi. Hins vegar er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar gert ráð fyrir því að þessi formbreyting eigi sér stað. Það kemur líka skýrt fram að það á ekki að selja eignarhluti ríkisins í þessum bönkum nema Alþingi taki ákvörðun um slíkt. Ég hef hins vegar sagt að til þess að styrkja eiginfjárstöðu þessara banka, til þess að gera þá betur í stakk búna til að mæta vaxandi samkeppni þá telji ég eðlilegt að menn byrji á því sem fyrsta skrefi að heimila fleiri aðilum að koma að með því að hægt sé að auka hlutafé í þessum bönkum. Það er sú leið sem hægt er að fara til þess að styrkja eiginfjárstöðu þeirra. Ef menn hins vegar gera ekkert annað en að slá bönkunum saman þá stendur það eftir að það hafa verið gerðar athugasemdir við það af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, að með því að hafa bankana annars vegar ríkisviðskiptabanka og hins vegar einkabanka starfandi á sama markaði þá er verið að skekkja samkeppnisaðstæður þessara banka. Bara út frá þeirri forsendu er nauðsynlegt að gera ríkisviðskiptabankana að hlutafélögum.