Réttur bænda o.fl. til atvinnuleysisbóta

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 15:15:30 (3739)

1996-03-11 15:15:30# 120. lþ. 104.1 fundur 218#B réttur bænda til atvinnuleysisbóta# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[15:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. félmrh. Málið varðar rétt bænda, smábátasjómanna, vörubílstjóra og fleiri sjálfstætt starfandi einyrkja til atvinnuleysisbóta. Þannig er að hæstv. ráðherra, þáv. hv. þm. Páll Pétursson, var afar skeleggur í baráttunni fyrir réttindum þessara hópa á síðasta kjörtímabili, þá að vísu stjórnarandstæðingur, og taldi með öllu óþolandi að til að mynda bændur væru látnir greiða tryggingagjald í Atvinnuleysistryggingasjóð en nytu þar engra réttinda. Hægt væri að tína til fjölmargar tilvitnanir í mál hv. þm. á síðasta kjörtímabili. Þannig sagði hv. þm. til að mynda 14. febr. 1994 að það gilti auðvitað það sama um bændur og vörubílstjóra og smábátaeigendur sem verið væri að tala um --- þetta var í umræðum um fyrirspurn frá hv. þm. Jón Helgsyni um atvinnuleysisbótarétt þessara aðila --- það væri verið að gera mönnum það skylt að gefa upp alla von, gefa sig upp á bátinn og hætta allri sjálfsbjargarviðleitni. Svo seint sem 3. febr. 1995 sagði hv. þáv. þm. Páll Pétursson í umræðum um þessi mál, með leyfi forseta:

,,Menn hafa verið að éta upp eignir sínar og margir eru búnir að safna neysluskuldum til þess að draga fram lífið. Þeir [þ.e. bændur] hafa ekki möguleika á atvinnuleysisbótum þó ótrúlegt megi virðast. Bændur eru látnir greiða í Atvinnuleysistryggingasjóð en honum er lokað fyrir þeim. Hann er harðlokaður fyrir bændum, þeir þurfa að gefa upp alla von og segja sig hér um bil til sveitar til þess að hafa einhverja möguleika á að fá einhverjar hundsbætur`` --- ég endurtek, herra forseti, hundsbætur, þetta eru óbreytt orð hv. þm. --- ,,úr Atvinnuleysistryggingasjóði.``

Nú veit ég ekki annað, herra forseti, að staðan sé nákvæmlega óbreytt eins og hún var þegar hv. þm., nú hæstv. félmrh., hafði þessi hörðu orð um óviðunandi réttarstöðu bænda, smábátasjómanna, vörubílstjóra og fleiri sjálfstætt starfandi einyrkja gagnvart þessum hlutum.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvað líður úrbótum á þessu sviði?