Réttur bænda o.fl. til atvinnuleysisbóta

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 15:17:44 (3740)

1996-03-11 15:17:44# 120. lþ. 104.1 fundur 218#B réttur bænda til atvinnuleysisbóta# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[15:17]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að taka þetta mál upp og rifja upp ummæli mín frá fyrra þingi. Ég hef ekki í neinu breytt þeirri skoðun minni og stend við allt sem ég sagði um þetta mál. Það er óviðunandi réttleysi einyrkja, þar með bænda, trillusjómanna, bílstjóra, og reyndar vil ég bæta námsmönnum við, að eiga hér um bil engan rétt til atvinnuleysisbóta.

Það sem gerst hefur í málinu er að það eru tvær nefndir að störfum. Önnur er að endurskoða atvinnuleysistryggingalöggjöfina og ég vænti þess að hún sé komin á lokastig. Hin er að störfum í því að finna út úr þessu með einyrkjana. Ég vonast eftir því að fá frá þeim tillögur innan skamms. Ég tel að þarna sé um atriði að ræða sem verði að leiðrétta og ég mun leggja allt kapp á að gera það.