Réttur bænda o.fl. til atvinnuleysisbóta

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 15:21:37 (3743)

1996-03-11 15:21:37# 120. lþ. 104.1 fundur 218#B réttur bænda til atvinnuleysisbóta# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[15:21]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta er nú greinilega miklu erfiðara hjá hæstv. félmrh. þrátt fyrir allt heldur en hann vill vera láta. Þó viðurkennir hæstv. ráðherra að valdið sé í hans höndum en hann hafi einfaldlega ekki notað það í þessa átta mánuði eða hvað það nú er sem hann er búinn að vera yfirmaður þessara mála. Það er nú auðvitað ekki nógu góð frammistaða satt best að segja. Staðreyndin er nefnilega sú að burt séð frá öllum lagabreytingum þá eru viss skilgreiningaratriði í reglugerð þannig úr garði gerð að þau taka engu tali. Svo dæmi sé tekið til að mynda fyrir vörubílstjóra þá þarf hann til þess að geta fengið atvinnuleysisbætur, ég segi nú ekki að henda vörubílnum en að minnsta kosti að taka hann af skrá og skila inn númerunum. Og það sama á við um bónda. Hann þarf að lýsa því yfir að hann hafi lokið sínum búskap o.s.frv. Þetta ákvæði er auðvitað gjörsamlega út í hött, út í loftið. Þessu hefði hæstv. ráðherra getað breytt, lagfært a.m.k. framkvæmdaatriðin þannig að þau gengju upp og látið svo bíða e.t.v. endurskoðun á lögunum, að taka á málinu í heild sinni. Ég get því ekki hælt hæstv. ráðherra fyrir frammistöðuna, því miður. Það er dapurlegt að þurfa að segja það en hæstv. ráðherra hefur alls ekki staðið undir þeim væntingum sem stórbrotnar lýsingar hans á þessu óréttlæti á síðasta kjörtímabili gáfu manni þó vonir til að ætla.