Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 15:44:07 (3751)

1996-03-11 15:44:07# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[15:44]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga sem lagt hefur verið fram á þskj. 664.

Samkvæmt lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., geta skuldarar sótt um heimild til að leita nauðasamninga. Eru úrræði laganna hvort heldur tæk einstaklingum eða lögaðilum. Ef nauðasamningur kemst á og ber árangur hefur skuldara tekist að koma nýrri skipan á fjármál sín og forðað því að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta.

[15:45]

Með lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. var leitast við að gera reglur um nauðasamninga einfaldari og aðgengilegri en ákvæði fyrri laga um nauðasamninga, nr. 19/1924, fólu í sér. Var þess vænst að það gæti leitt til nokkurrar aukningar á beitingu úrræðisins, bæði fyrir lögaðila og einstaklinga. Reyndin hefur hins vegar orðið sú að sárafáir nauðasamningar hafa komist á fyrir einstaklinga, einkum þá sem leggja ekki stund á atvinnurekstur. Það verður ekki rakið til þess að einhverjir meinbugir séu á lögum um gjaldþrotaskipti að þessu leyti. Vafalaust er skýringin sú að skuldari þarfnast yfirleitt aðstoðar lögmanns til að leggja grundvöll að nauðasamningsumleitunum og setja fram slíka beiðni. Það er kostnaðarsamt fyrir einstakling sem glímir við fjárhagsörðugleika auk þess sem hann þarf að leggja fram tryggingu þegar beiðni um heimild til að leita nauðasamnings er lögð fyrir héraðsdóm. Þetta hefur reynst einstaklingum ofviða í mörgum tilvikum og væntanlega komið í veg fyrir að nauðasamningar hafi reynst þeim það úrræði sem að var stefnt með þeim lagabreytingum. Frv. þetta gerir á hinn bóginn ráð fyrir réttaraðstoð með því að ríkissjóður greiði kostnað af aðstoð við að leita nauðasamnings ásamt tryggingu sem skuldara ber að leggja fram við meðferð málsins fyrir dómi. Jafnframt gerir frv. ráð fyrir því að lögð verði fram frumvörp til breytinga á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og lögum nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, þar sem lagt er til að veittar verði rýmri heimildir til að fallast á nauðasamninga vegna opinberra gjalda og meðlagsskulda. Þessar kröfur eru verulegur hluti af skuldum einstaklinga og því gæti synjun nauðasamnings vegna þeirra gert út um slíka viðleitni skuldara. Verði öll þessi frumvörp að lögum ættu nauðasamningar að geta orðið raunhæft úrræði fyrir einstaklinga í fjárhagsvanda.

Ég hef, herra forseti, gert grein fyrir meginatriðum þessa frv. og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. allshn.