Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 16:08:54 (3754)

1996-03-11 16:08:54# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[16:08]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók það fram í máli mínu að í umsögn fjmrn. stæði að þeir teldu ógerlegt að meta hversu margir einstaklingar mundu nýta sér þessa aðstoð. En þeir tóku þó mið af ákveðinni forsendu og varla er hún út í bláinn. Þeir þurfa varla að margfalda hér fyrir alþingismenn hvað 250 þús. á tíu einstaklinga þýðir. Hv. þingmenn geta reiknað það út sjálfir þannig að það hlýtur að vera eitthvað meira á bak við þetta en það. Auðvitað hlýtur sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar að fara ofan í það hvaða úrræði þetta séu fyrir einstaklingana. Það er engum greiði gerður með því að vekja upp einhverjar falsvonir hjá skuldugum einstaklingum um að hér sé verið að setja fram mál sem margra vanda á að leysa, en svo þegar upp er staðið og farið verður að vinna samkvæmt þessu nýja úrræði leysi það vanda mjög fárra. Alþingi hlýtur þá að taka málið upp í heild sinni og skoða hvort ekki sé skynsamlegra að fara aðrar leiðir, t.d. með lögum um greiðsluaðlögun. Ég veit, og vísa þar til umræðna á undanförnum árum á Alþingi, að það er meiri hluti fyrir því að fara þá leið að koma á víðtækari greiðsluaðlögun en hér er gert. Það er fyrst og fremst af því að Framsfl. er í þessu máli eins og öðrum ávallt undir hælnum á Sjálfstfl. Þess vegna komumst við ekki nema hænufet í þessu máli.