Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 16:14:55 (3758)

1996-03-11 16:14:55# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[16:14]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að þetta er bara útúrsnúningur hjá hæstv. ráðherra. Hann er að reyna að draga athyglina frá ýmsu sem fram kemur í þessu frv. og kannski einmitt því hvað hér er um litla úrlausn fyrir fólk að ræða, nánast enga. Þetta frv. er ekkert annað en sýndarmennska af hálfu hæstv. dómsmrh. og hæstv. ríkisstjórnar. Ég hef ekki dregið í land með eitt eða neitt. Ég er einungis að vitna í það sem stendur í umsögn fjmrn. um þetta mál og gerði grein fyrir hvernig fjmrn. hefði matreitt þessar tölur. En hér er um svo lítið skref að ræða að hæstv. dómsmrh. fer greinilega á taugum í ræðustólnum. Mér finnst það ekkert skrýtið því að auðvitað skammast hæstv. dómsmrh. sín fyrir hve lítið skref er verið að stíga til þess að hjálpa þeim sem eru í miklum skuldum.