Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 16:16:00 (3759)

1996-03-11 16:16:00# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[16:16]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég undrast mjög málflutning hv. 13. þm. Reykv., Jóhönnu Sigurðardóttur, sem ég veit að er vel að sér í þessum málaflokki enda var hún um hríð félmrh. Það kemur í ljós við nánari athugun í lauslegri úttekt fjmrn. að 50% af skuldum einstaklinga eru vegna skattaskulda. Helmingur skuldavandræða fólks er vegna skattaskulda. Um 30% af skuldavandræðum fólks er vegna skulda eða lána í bönkum og sparisjóðum. Það kemur líka í ljós að það eru innheimtumenn ríkissjóðs sem biðja um gjaldþrotið. Það eru þeir sem biðja um gjaldþrot. Gjaldþrotum hefur fjölgað mikið á síðustu árum. 1992 var beðið um 107 gjaldþrot á vegum héraðsdóms Reykjavíkur. 1993 voru þau 209 og 1994 548. Þetta getur ekki gengið svona til lengdar. Það eru innheimtumenn ríkissjóðs sem biðja um þessi gjaldþrot. Það kostar ríkissjóð um 100--150 þús. kr. vegna vinnu lögfræðinga við að gera upp þessi bú og það innheimtist í flestum tilfellum ekkert upp í þessa kröfur. Þess vegna held ég að það frv. sem hér er lagt fram sé spor í rétta átt.

Það hefur líka komið í ljós að það eru þrjár meginástæður fyrir greiðsluvanda fólks. Það kom fram í samantekt um greiðsluvanda heimilanna sem var kynnt í júlí 1995. Þessar þrjár meginástæður eru: Lækkun launa, áhrif skattbreytinga og lækkun barnabóta, vaxtabóta og þess háttar. Ég spyr: Hver var félmrh. á þeim tíma þegar þessar lækkanir áttu sér stað? Og það er einnig aukið framboð lána á lánsmarkaði.