Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 16:19:55 (3761)

1996-03-11 16:19:55# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[16:19]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Vissulega skoðaði sú nefnd sem ég var í forsvari fyrir mjög margar leiðir og við veltum fyrir okkur mjög mörgum leiðum. Ég geri mér einnig grein fyrir því að hér erum við að taka ákveðin skref í þá átt að hjálpa fólki sem á í verulegum vandræðum.

Við vitum einnig að fjmrn. og innheimtumenn ríkisins hafa verið ákaflega stífir við að gefa ekkert eftir af þessum skattaskuldum. Við vitum líka og það veit hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir að margar af þessum kröfum innheimtumanna ríkissjóðs eru áætlaðar skattskuldir. Það er vegna þess að það eru ekki allir sem gera skattframtölin. Þegar fólk lendir í verulegum vandræðum fara fjármálin í raun og veru í rúst. Ég tel að það sem við höfum verið að gera í þessum efnum sé mjög til góðs.

Við vitum að við getum ekki bjargað öllum sem eiga í vandræðum. Það er alveg ljóst. Við vitum að það er vegna þess að fólk eyðir því miður um efni fram og við sáum í okkar nefndarstarfi hræðileg dæmi um það, ekki einungis hjá þeim sem lægst hafa launin heldur einnig hjá fólki sem er með meðaltekjur og jafnvel mjög há laun. Ég tel að það sem við erum að gera í þessum efnum sé spor í rétta átt.