Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 16:36:01 (3763)

1996-03-11 16:36:01# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[16:36]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það frv. sem hér er til umræðu er hluti af stærri pakka, þ.e. það eru þrjú frumvörp sem tengjast hvort öðru og eiga öll að leiða til aðstoðar við það fólk sem á við greiðsluerfiðleika að stríða. Það er góðra gjalda vert og að sjálfsögðu nauðsynlegt að til séu úrræði til þess að aðstoða fólk í greiðsluerfiðleikum, ekki síst vegna þess að það hefur komið í ljós að gjaldþrot og gjaldþrotaskipti leiða í rauninni oft ekki neitt af sér. Kröfur ná ekki fram að ganga og það gæti reynst miklu affarasælla að reyna að teygja á tímanum og gera fólki kleift að ná einhvern veginn jafnvægi í skuldum sínum.

Eftir að hafa hlustað á þessa umræðu, hæstv. forseti, hlýtur að vakna sú spurning hver þörfin sé fyrir aðgerðir af þessu tagi. Það kemur mér nokkuð spánskt fyrir sjónir að ríkisvaldið, framkvæmdarvaldið, skuli leggja fram frv. af þessu tagi án þess að fyrir liggi nokkuð skýr mynd um það hver þörfin sé. Það kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að enn sem komið er eru þeir tiltölulega mjög fáir sem hafa nýtt sér þann möguleika að lengja húsbréfalán til 40 ára, hver sem raunin kann að verða síðar. Þá vaknar sú spuring hver þörfin sé á þeirri aðstoð sem hér er verið að bjóða og hver þörfin sé á þeim breytingum sem ætlað er að gera á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Ég hefði talið mjög brýnt að menn gerðu sér einhverja grein fyrir þörfinni og þar með talið kostnaðinum. En eflaust eru til einstaklingar sem þurfa á úrræðum að halda og þar af leiðandi þurfa þau að vera til staðar.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem hér hefur verið sagt. Það hafa margar spurningar komið fram til hæstv. dómsmrh. og ég vil bæta við spurningum um þá upphæð sem hér er kveðið á um, þ.e. 250 þús. kr. handa hverjum umsækjanda. Á hverju byggist þessi upphæð, hæstv. dómsmrh.? Hversu langt dugar hún? Hver er meðalkostnaðurinn við aðgerð af þessu tagi? Má reikna með því að þetta dugi flestum þeim sem leita eftir þessari réttaraðstoð eða þurfa menn sjálfir að leggja eitthvað til?

Ég hlýt líka að spyrja, eins og þeir sem hafa talað á undan mér, hverju það sætir að ríkisstjórnin velur að fara þessa leið í stað þess að veita greiðsluaðlögun. Hér var lagt fram í fyrra ítarlegt og að allra dómi mjög gott frv. af Framsfl. og við í stjórnarandstöðunni tókum okkur til og fluttum frv. framsóknarmanna eins og það lagði sig á vorþingi og vorum harla ánægð með það. En hér kemur skýrt fram að ríkisstjórnin hefur vikið þeirri leið til hliðar og í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

,,Hætt er við að greiðsluaðlögun yrði kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð og legði miklar byrðar á þau stjórnvöld sem færu með þetta verkefni.``

Ég vildi biðja hæstv. dómsmrh. að skýra frekar í hverju munurinn liggur. Hvers vegna yrði greiðsluaðlögun miklu dýrari leið? Ég einfaldlega átta mig ekki á því.

Þegar við ræðum um þessi úrræði verða menn að gera sér grein fyrir því hvernig skuldir heimilanna eru saman settar, hverjar orsakir eru og hvar ábyrgðin er. Samkvæmt þeim skýrslum sem við höfum fengið í okkar hendur um skuldir heimilanna er ýmislegt sem kemur á óvart. M.a. hve það sem við getum kallað lausaskuldir eða neysluskuldir eru stór hluti af skuldunum, þ.e. lántökur í bönkum og lánastofnunum af ýmsum ástæðum. Einnig kemur á óvart hve námslán vega þungt í skuldum margra og að stór hluti skulda þeirra sem hér er vísað til eru skattar og opinber gjöld, þar með talin meðlög. Menn hljóta að spyrja sig hvar ábyrgðin sé. Hver er ábyrgð einstaklinganna gagnvart fjármálum sínum og hvenær fara menn fram úr sjálfum sér? Hvenær eru menn að tefla á tæpasta vað og hvenær er það ástandið í samfélaginu og jafnvel aðgerðir ríkisvaldsins sem eiga þar hlut að máli?

Í því samhengi vil ég minna á það, sem ég hef reyndar áður nefnt í þessum ræðustól, að þess voru allmörg dæmi og kunna að vera enn að greiðslumat húsbréfadeildarinnar sé upp á það allra mesta, þ.e. að þeir ætli fólki helst til mikið og þess vegna hafi margir lent í vandræðum. En það er ekki síður það að ungu fólki er ætlað að afla sér húsnæðis, standa undir námsskuldum, eignast börn og ala þau upp og standa undir öllu þessu með þeim lágu launum sem hér eru greidd. Með þeim samdrætti sem við höfum gengið í gegnum á undanförnum árum hefur þetta orðið mjög mörgum þungt í skauti.

Hæstv. forseti. Ég get í sjálfu sér fallist á að þessi leið er hvorki betri né verri en aðrar. Það er engin ástæða til annars en að styðja þetta frv. en þó eru hér ýmsar spurningar sem nauðsynlegt er að fá svar við, eins og t.d. það hvers vegna þessi leið er valin og hver hin raunverulega þörf er sem við erum að fást við hérna.