Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 17:25:19 (3774)

1996-03-11 17:25:19# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[17:25]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér fannst hæstv. ráðherra alls ekki gefa þinginu fullnægjandi svör við því af hverju horfið hefði verið frá frv. um greiðsluaðlögun. Hæstv. ráðherra vísaði til þess að nefnd undir forustu hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar hefði komist að þessari niðurstöðu. Ég vil í því sambandi minna á að nefnd sem vann á vegum félmrn. skilaði líka í maí 1994 mjög ítarlegri skýrslu um greiðsluaðlögun. Það var ítarleg skýrsla í sex köflum þar sem m.a. var farið yfir reynslu annarra þjóða sem hafa tekið upp þessa löggjöf og hvernig slík úrræði hentuðu hér á landi. Niðurstaða nefndarinnar var sú að í tíu atriðum telur hún upp kosti þess að taka upp lög um greiðsluaðlögun og leggur hreinlega til að slíkri löggjöf verði komið á. Hún segir í sínum niðurstöðum að reynsla Norðurlandaþjóðanna af greiðsluaðlögun sé góð og að nákvæm úttekt Norðmanna á reynslu af greiðsluaðlögun fyrstu ár laganna gefi til kynna að árangur sé góður og í samræmi við markmið sem sett voru. Og síðan kemur fram að þetta séu góð úrræði fyrir einstaklinga í alvarlegum greiðsluvandræðum hér á landi. Þannig að þetta er allt önnur niðurstaða heldur en þessi nefnd hefur komist að. Og nefndin sem fær þetta mál til úrlausnar hér á þinginu hlýtur að skoða ítarlega þessa skýrslu fyrri nefndar sem starfaði í þessu máli.

Af því að ráðherrann segir að það sé til marks um að þetta sé gott úrræði að ég tali gegn því, þá vil minna hann aftur á frv. sem hann flutti hér fyrir jólin og ráðherra var rekinn til baka með. Nefnd sem starfaði á vegum ráðherrans í tæpt ár eða a.m.k. 6--8 mánuði kom með þetta frv. Síðan kemur hæstv. ráðherra með það inn í þingið. Og við athugun nefndarinnar á málinu kemur í ljós að það er verið að þrengja verulega ákvæði sem voru til staðar um skuldbreytingu. 2.000 manns höfðu fengið úrræði frá 1993 en það kom í ljós við athugun nefndarinnar að einungis 400 en ekki 2.000 hefðu fengið fyrirgreiðslu ef úrræði hæstv. félmrh. hefðu verið í gildi. Hér var því um verulega þrengingu að ræða. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort reglugerðin sem hann nefndi að hann væri að gefa út um skuldbreytingu lána feli í sér einhver ný úrræði frá því sem verið hefur frá 1993. Er ekki einungis verið að lögfesta þau úrræði sem hafa verið í gildi frá 1993?