Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 18:04:07 (3782)

1996-03-11 18:04:07# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, BH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[18:04]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Munurinn á þessum tveimur úrræðum sem hér hafa verið til umræðu er skýr, annars vegar á margumræddri greiðsluaðlögun og hins vegar á því úrræði sem hér er verið að leggja til.

Greiðsluaðlögun felur í sér ákveðna félagslega lausn. Það er í mínum huga mjög skýrt að þarna er um að ræða félagslega lausn. Hún snýst um það að opinber embættismaður, sýslumaður, tekur í raun og veru skuldarann og hans vandamál í gjörgæslu. Það gerist þannig að markmið laganna er náttúrlega fyrst og fremst það að hjálpa einstaklingum sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum og greiðsluerfiðleikarnir verða að vera viðvarandi. Það eru ýmis úrræði í reglunum um greiðsluaðlögun sem er ætlað að koma í veg fyrir misnotkun eins og oft er um félagsleg úrræði t.d. það að ekki er hægt að skrifa maka fyrir eignum og sækja síðan um greiðsluaðlögun.

Ef ekki hefur náðst fyrirkomulag við lánardrottna er hægt að sækja um að fjármálin verði tekin til athugunar hjá sýslumanni. Umsóknareyðublöð liggja frammi hjá félagsmálastofnun, á skrifstofu neytendastofnunarinnar og hjá sýslumönnum. Þetta bendir allt til þess að þarna sé um að ræða félagsleg úrræði, vegur sem fólki er bent á að fara ef það lendir í vandamálum. Skuldarinn fær síðan þriggja mánaða greiðslufrest á öllum sínum skuldum eftir að umsóknin hefur verið samþykkt. Greiðslustöðvunartímabilið sem svo er kallað, þetta þriggja mánaða tímabil, er síðan notað til samningaumleitana við lánardrottna um það hvernig skuldari getur losnað úr þeim alvarlegu greiðsluerfiðleikum sem hann er í.

Það er gengið út frá því að skuldari borgi skuldir sínar en með öðrum skilmálum en hingað til. Til að létta greiðslubyrðina er samið um tiltekin atriði í ákveðinni röð. Það eru ákveðnar reglur sem gilda um það hvernig þetta skuli gert. Í vissum tilvikum er hægt að fara fram á afskrifun skuldar að hluta eða hún er afskrifuð að öllu leyti. Á greiðslustöðvunartímabilinu tekur sýslumaður eignaskuldara í sína vörslu og það er ekki hægt að selja eignir t.d. á nauðungaruppboði á tímabilinu. Skuldara er ætlaður lágur framfærslukostnaður fyrir fjölskylduna á greiðslustöðvunartímabilinu og líka á því tímabili sem í hönd fer og nefnt er greiðsluaðlögunartímabil og þetta tímabil er fimm ár.

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason talaði um það áðan að greiðsluaðlögunartímabilið væri allt of seinvirkt úrræði. Ég verð að segja það eins og er að ég er svolítið hissa á þessu vegna þess að ég held að í svona málum þegar um langvarandi greiðsluvandamál fjölskyldu er að ræða sem er búinn að vefja upp á sig --- þetta er orðinn stór snjóbolti sem er búinn að rúlla lengi og sem við megum ekki gleyma að stjórnvöld bera að vissu leyti ábyrgð á þessu, við erum að viðurkenna það --- þá er ekkert of langur tími að ætla sér fimm ára aðlögunartímabil til ná því niður. Og það verður ekki gert með einni 250 þús. kr. greiðslu sem fer beint til lögmanns eða í tryggingu. Það er þetta sem er lykilatriði. Það er grundvallarmunur á þessum tveimur úrræðum.

Það er vissulega rétt að þetta úrræði sem hér er til umræðu er spor í rétta átt. Ég held að enginn hafi þrætt fyrir að það er spor í rétta átt. En það er grundvallarmunur á þessum tveimur úrræðum og því er á engan hátt verið að uppfylla loforð um greiðsluaðlögun með þessu frv. Ég hef ekki enn þá séð sannfærandi rök fyrir því og í raun og veru langt í frá. Og það sem kannski helst skilur þessi tvö úrræði að er það hvað gerist síðan ef skuldarinn ekki getur staðið við þetta. Það er grundvallaratriði í málinu. Það er tekið á þessum skuldara sem er kominn í félagslega gjörgæslu, ef svo má að orði komast, mildum höndum ef tiltekin atriði koma upp eins og það að hann missir atvinnu á þessu tímabili. Samkvæmt þessum úrræðum sem hér eru til staðar er ekki svo. Þá er það bara viðurkennt að það sé aldrei hægt að fullu að forða gjaldþrotum einstaklinga.

Það alvarlega hefur hins vegar gerst hér á landi og þróunin hefur verið sú síðustu ár, sem hefur sýnt sig m.a. með upplýsingum frá héraðsdómi Reykjavíkur, að gjaldþrotum fyrirtækja hefur fækkað á meðan gjaldþrotum einstaklinga hefur stórlega fjölgað. Þetta er alvarlegur hlutur sem verður að taka ábyrgð á og verður að ná einhverjum viðvarandi lausnum á. Ég get ekki séð að það sé gert með þessu frv.

Að lokum vil ég ítreka þær spurningar sem ég lagði í upphafi fyrir hæstv. dómsmrh. Ég spurði hann í upphafi umræðunnar um ýmis atriði, t.d. um nefndina sem á að úthluta og af hverju þetta sé ekki sett í hendur sýslumanns eða einhvers opinbers aðila. Af hverju er verið að búa til sérstaka nefnd? Ég vildi gjarnan fá skýringar á því. Einnig mundi ég gjarnan vilja heyra skýringar hans á þessum séríslensku aðstæðum. Og hvað þær varðar, þá hefur verið borið saman í umræðunni annars vegar lagaumhverfið sem við búum við í gjaldþrotaréttinum og þar á meðal varðandi nauðasamningana og hins vegar Norðurlöndin. En ég man ekki betur en fyrirmyndin að þessu réttarkerfi sem við búum nú við m.a. á sviði gjaldþrotaskipta hafi verið sótt til Norðurlandanna. Þetta er kerfi sem var hannað fyrir nokkrum árum að mestu leyti af Markúsi Sigurbjörnssyni, núv. hæstaréttardómara, og fleirum sem unnu með honum að undirbúningi þessara breytinga.

Nú þori ég ekki að fullyrða að þessi lög séu í einu og öllu eins og þau sem gilda á Norðurlöndunum. En með tilliti til þess þætti mér einmitt gaman að heyra það enn og aftur frá hæstv. dómsmrh. hverjar þessar séríslensku aðstæður séu. Eru þær fólgnar í lagaumhverfinu varðandi nauðasamninga? Er eitthvað öðruvísi í reglunum á Norðurlöndunum, í reglunum um gjaldþrotaskipti, gjaldþrotaskipti einstaklinga og það sem snýr að nauðasamningsumleitunum? Það er eina skýringin sem ég get séð að gæti réttlætt eitthvað sem heitir séríslenskar aðstæður. En því miður fyrir höfunda frv. man ég ekki betur en að þessar tiltölulega nýlegu reglur sem gilda núna um gjaldþrotaskipti og nauðasamninga séu einmitt fyrst og fremst byggðar á reglum Norðurlandanna. Eftir þessa umræðu stendur það í mínum huga sem reyndar hefur komið fram áður að ekki sé um neinar séríslenskar aðstæður að ræða aðrar en þær að hér er pólitísk tregða hjá ríkisstjórninni til að koma á kerfi um greiðsluaðlögun. Ég get ekki séð neinar aðrar skýringar. En kannski hefur hæstv. dómsmrh. einhverjar skýringar í farteskinu.