Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 18:31:31 (3787)

1996-03-11 18:31:31# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[18:31]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. svörin við spurningum mínum. Ég saknaði þó svars við einni spurningu. Það var spurningin sem sneri að því hvort til staðar væru einhverjar séríslenskar aðstæður í lagaumhverfinu um nauðasamninga eða heimildir til að leita nauðasamninga um gjaldþrotaskipti sem búa til þessar séríslensku aðstæður? Mér finnst þetta mikilvægt atriði. Ef svo er ekki get ég ekki séð annað en að sú umræða, sem hefur verið hér í dag og snýst um einhverjar séríslenskar aðstæður sem maður hefur enn ekki fengið skýr svör við, sé í raun og veru einungis til að fela ákveðna pólitíska tregðu til þess að beita þessu úrræði. Hana má að hluta til skýra með því að ríkisstjórnin vilji ekki verja fé til þessarar aðgerðar og það er þá forgangsröðun. En ég sakna þess svolítið í þessari umræðu að fá það skýrt fram. Er það ekki bara ástæðan? Hæstv. dómsmrh. telur ekki ómögulegt að hugsa þetta á einhvern annan hátt. Ég vil þá benda á að það er ráðgert að nefndarstarfið sem slíkt kosti frá 0,3 upp í 0,5 millj. kr. á meðan kostnaðarauki sem verið er að tala um fyrir skuldarann er áætlaður um 4--10 millj. kr., sé um 20--40 einstaklinga að ræða. Mér finnst nefndarstarfið nokkuð hátt hlutfall af ráðum til úrbóta. Ég vil gjarnan fá svar við því hvort eitthvað hafi verið til umræðu í nefndinni eða ríkisstjórninni að hreinlega fara þá leið að láta héraðsdómara meta þetta á sama hátt og hann metur hvort skilyrði séu til nauðasamninga, eins og gert er ráð fyrir í lögunum sjálfum um nauðasamningana. Er hann ekki sá sem almennt fjallar um þessi mál og þá kannski best til þess fallinn að meta hvort skilyrði til nauðasamninga séu til staðar í tilfelli þessa einstaklings?