Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 18:46:33 (3792)

1996-03-11 18:46:33# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[18:46]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að meta loforð framsóknarmanna en ef ég ætti að meta þann árangur sem við eigum að ná með þessum frv., fylgifrv. þessa frv. um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga, þá erum við að uppfylla það sem mögulegt er að gera gagnvart skuldugu fólki. Ég held að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hljóti að hafa orðið vör við það t.d. í kosningabaráttunni. A.m.k. þegar ég kom á hina ýmsu vinnustaði voru meðlagsskuldir með mestu og erfiðustu málum sem margur átti við að glíma. Ég held að ég megi segja að á mjög mörgum vinnustöðum var það sem hvíldi einna þyngst á viðkomandi karlmönnum hvernig þeir ættu að komast úr úr þeim ótrúlega bagga sem Innheimtustofnun hefur sett þessa menn í af ýmsum ástæðum --- og þeir sjálfir náttúrlega. En eigi að síður hafa þeir ekki haft nein úrræði. Þeir hafa ekki haft nein úrræði að leita eftir til þess að semja sig út úr þeim skuldum sem hafa safnast upp hjá Innheimtustofnun. Ég tel að það séu einmitt þau atriði sem við erum að tala um, þ.e. að finna úrræði fyrir þetta fólk.

Með þessu frv. tel ég einmitt að við höfum náð þeim áfanga og hann er að mínu viti mjög mikilvægur og lítil ástæða til að gera það tortryggilegt eða að gera lítið úr þeim áhrifum sem það mun hafa.