Innheimtustofnun sveitarfélaga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 18:59:03 (3798)

1996-03-11 18:59:03# 120. lþ. 104.11 fundur 356. mál: #A Innheimtustofnun sveitarfélaga# (samningar við skuldara) frv. 71/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[18:59]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þegar hæstv. ráðherra segir að dráttarvextir hafi verið umsemjanlegir þá held ég að það hafi fyrst og fremst verið þannig að fólk gat samið um að þeir yrðu felldir niður að hluta eða öllu leyti ef þeir stæðust ákveðna áætlun. En það sem ég er að spyrja hæstv. ráðherra um er hvort ekki sé rétt að falla alfarið frá dráttarvöxtum, sem eru kannski 14--15%, og fara niður í venjulega samningsvexti, sem eru kannski helmingi lægri, þ.e. hætta að reikningsfæra þetta á dráttarvexti. Það er það sem hefur hleypt upp skuldunum og í skýrslu nefndar sem fjallaði um þetta mál segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Dráttarvextir þyngja því greiðslubyrðina verulega og eru þess oft á tíðum valdandi að menn gefast endanlega upp við að standa í skilum.``

Þess vegna er bein spurning mín til hæstv. ráðherra: Er hann tilbúinn að beita sér fyrir því og þá hugsanlega í meðförum málsins í þinginu að fallið verði frá því að dráttarvaxtareikna skuldirnar heldur verði teknir upp venjulegir vextir?

Í lokin varðandi kostnaðinn við þetta frv. Nú á að afskrifa höfuðstólinn. Þetta eru engin ný viðbótarútgjöld hjá ríkissjóði en einhver hlýtur að bera það að verið sé að afskrifa höfuðstól skuldara að hluta eða öllu leyti kannski upp á 4 milljarða. Er það þá Jöfnunarsjóður sveitarfélaga eða Innheimtustofnun?