Innheimtustofnun sveitarfélaga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 19:14:59 (3806)

1996-03-11 19:14:59# 120. lþ. 104.11 fundur 356. mál: #A Innheimtustofnun sveitarfélaga# (samningar við skuldara) frv. 71/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[19:14]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi mál eru ekki þess eðlis að það eigi að gantast með þau. Við erum að ræða háalvarlegt mál. En það sem mér hefur oft fundist koma í ljós þegar málefni meðlagsgreiðenda koma til umræðu hér, er að þeir njóta mikillar samúðar meðal karlpeningsins í sölum hins háa Alþingis. En við konurnar höfum stundum komið með ýmsar gagnrýnar spurningar um þessi mál og það sem mér finnst liggja að baki er að það ríkir ákveðið kæruleysi í þessum málefnum í samfélagi okkar. Karlmenn leyfa sér sumir hverjir að eiga börn og það nokkuð víða og telja sig ekki bera mikla ábyrgð á þeim. Maður hefur iðulega heyrt þá kvarta undan þessum erfiðu meðlögum og vissulega geta þau verið þung í skauti. En þá spyr maður bara: Af hverju í ósköpunum er fólk að eiga öll þessi börn? Mér finnst að hæstv. félmrh., sem fer með forræði fjölskyldumála, eigi að taka tak í þessum málum og reyna að brýna fyrir karlmönnum landsins að sýna meiri ábyrgð til þess að þeir lendi ekki í þessum erfiðu skuldum því að ég held að það sé ekki hægt að horfa fram hjá því að þarna er um ákveðið ábyrgðarleysi og kæruleysi að ræða sem á sér djúpar rætur í sögu okkar og menningu og þarna getum við gert á bragarbót með því að sýna meiri ábyrgð og með því að nota smokkinn.