Innheimtustofnun sveitarfélaga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 19:16:54 (3807)

1996-03-11 19:16:54# 120. lþ. 104.11 fundur 356. mál: #A Innheimtustofnun sveitarfélaga# (samningar við skuldara) frv. 71/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[19:16]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Augnablik var ég að hugsa um að lofa hv. síðasta ræðumanni að eiga síðasta orðið. Auðvitað er um ábyrgðarleysi og kæruleysi að ræða í einhverjum tilfellum en það er alls ekki í öllum. Ég held að það sé einmtt mjög verðugt verkefni og við ættum heldur að reyna að sameinast um það að koma málefnum fjölskyldnanna í landinu í gegnum margvíslegar aðgerðir. Ég vonast eftir að geta í næstu viku mælt fyrir tillögu um fjölskyldustefnu sem gengur væntanlega til hv. félmn. og ég vona að fái þar góðar viðtökur hjá hv. félmn.

Ég vil taka það fram að jafnréttismál tilheyra ráðuneyti mínu og ég hef spekúlerað töluvert í þeim eftir að ég kom í ráðuneytið, gerði það reyndar áður, en eftir að það var orðinn partur af vinnunni, þá hef ég gert það og það er ýmislegt sem hægt er að laga þar og ég er staðráðinn í að reyna að laga.

Hlutskipti allra þeirra feðra sem þurfa að borga meðlag er ekki sjálfvalið. Ég leyfi mér að fullyrða að stór hópur þeirra vildi heldur hafa fengið forræði yfir börnunum. En þjóðskipulag okkar og venjur hafa hagað því þannig til að í langflestum tilfellum fær móðirin forræði barnsins. Þetta eru einhver heitustu, erfiðustu og tilfinningaþrungnustu mál sem maður verður var við. Að vissu leyti er kannski hægt að segja að það séu forréttindi fyrir móðurina jafnvel að fá forræði barnsins. Ég þekki nokkra feður sem vildu mikið til vinna að fá forræði yfir börnum sínum.