Innheimtustofnun sveitarfélaga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 19:22:21 (3809)

1996-03-11 19:22:21# 120. lþ. 104.11 fundur 356. mál: #A Innheimtustofnun sveitarfélaga# (samningar við skuldara) frv. 71/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[19:22]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Vegna orða hæstv. félmrh. um forræði barna tek ég undir það með honum að ég held að það sé öllum að verða ljóst núna að það er eftirsóknarvert hlutskipti að fá forræði barna sinna og feður eru sem betur fer í auknum mæli að átta sig á því. En samfélagsgerð okkar er því miður þannig að mæður sinna börnum sínum í reynd meira en feður og ég hygg að það sé fyrst og fremst tvennt sem skýrir það. Það er annars vegar hinn gífurlegi launamunur kynjanna og hins vegar möguleikar kynjanna til að taka fæðingarorlof. Þetta veldur því að börn eru mun tengdari mæðrum sínum en feðrum þegar til skilnaðar kemur þegar um það er að ræða og m.a. þess vegna dæmist það mun oftar mæðrum í vil að hafa forræði þegar tveir deila. Reyndar er það úrræði í vaxandi mæli notað að foreldrar hafa sameiginlega forsjá. Ef feður vilja í raun og veru standa jafnfætis mæðrum og ef hæstv. félmrh. vill gera eitthvað til þess að gera þeim það kleift verður hann að standa að tvenns konar breytingum. Fyrst og fremst að auka möguleika feðra til þess að taka fæðingarorlof og í öðru lagi að gera eitthvað raunverulegt í því að jafna launamun kynjanna.