Innheimtustofnun sveitarfélaga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 19:23:51 (3810)

1996-03-11 19:23:51# 120. lþ. 104.11 fundur 356. mál: #A Innheimtustofnun sveitarfélaga# (samningar við skuldara) frv. 71/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[19:23]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Hvort tveggja er á dagskrá. Ég hef í undirbúningi og á það er m.a. drepið í þáltill. um fjölskyldustefnu að stefna að rýmkuðu fæðingarorofi feðra.

Varðandi launamuninn er að fara í gang verkefni um starfsmat sem ég veit að hv. þingmenn þekkja og ég vonast eftir að geta átt fund út af því máli á morgun með nefndinni sem hefur unnið að því, þ.e. nefnd Sivjar Friðleifsdóttur. Þetta er að ég hygg skref í áttina sem er tvímælalaust rétt að taka, þ.e. að koma á kynlausu starfsmati í fjórum fyrirtækjum eða stofnunum, tveimur á vegum ríkisins, einu á vegum borgar og einu í einkageiranum. Að þessu er unnið.

Ég fór til Bandaríkjanna og mælti fyrir skýrslu um framkvæmd jafnréttisáætlunar hjá sérfræðinganefnd Sameinuðu þjóðanna. Þetta var mjög fróðleg ferð og gaman að kynnast viðhorfi þeirra 23 sérfræðinga sem þarna voru eða þeirra sem ég hafði einhver samskipti við. Mér finnst að tvennt standi mjög áberandi upp á okkur í jafnréttismálum. Það er í fyrsta lagi kynbundinn launamunur, í öðru lagi réttleysi sveitakvenna. Ég vil reyna að laga hvort tveggja og á næstunni verður haldin á Akureyri ráðstefna á mínum vegum um atvinnumál kvenna í dreifbýli.

Ég get jafnframt getið þess að ég hef skrifað Jafnréttisráði og leitað álits á hugmynd sem ég hef og vil gjarnan hrinda í framkvæmd. Það er að verðlauna eða veita viðurkenningu fyrirtækjum eða stofnunum sem geta sannað að þar sé ekki kynbundinn launamunur. Ég ætlast til þess að fyrirtækin líti svo á að það sé eftirsóknarvert, fái viðurkenningu sem hægt sé að hafa á áberandi stað og hef ritað Jafnréttisráði nýlega þar um.