Mannanöfn

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 13:37:18 (3811)

1996-03-12 13:37:18# 120. lþ. 105.4 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, Frsm. SP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[13:37]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. um frv. til laga um mannanöfn, en nál. er á þskj. 657, og meðfylgjandi brtt. á þskj. 658. Allir nefndarmenn allshn. undirrita nál. en Ögmundur Jónasson með fyrirvara.

Nefndin hefur fjallað ítarlega um frv. á mörgum fundum og í þeirri vinnu hefur nefndin notið góðrar aðstoðar þeirra Drífu Pálsdóttur, skrifstofustjóra í dómsmrn. og Halldórs Ármanns Sigurðssonar prófessors en þau ásamt Hjálmari Jónssyni þingmanni skipuðu þá nefnd er samdi frv. Jafnframt fékk nefndin fjölda gesta á sinn fund og fjöldi umsagna barst til nefndarinnar.

Frumvarpið gerir almennt ráð fyrir meira frelsi í nafngiftum en samkvæmt gildandi lögum, einkum með því að heimila aðlöguð erlend eiginnöfn, jafnvel þótt þau styðjist ekki við hefð í íslensku máli, og með því að heimila millinöfn. Þannig er t.d. í frv. gerð sú breyting að ekki er lengur tilskilið að eiginnafn skuli vera íslenskt. Þessi breyting felur í sér mikla rýmkun því að fjöldi tökunafna, sem ekki hafa unnið sér hefð í íslensku máli, getur tekið íslenska eignarfallsendingu. Þessu ákvæði um eignarfallsendingu er ætlað að tryggja að ný tökunöfn lagist að reglum íslensks máls, að nokkru marki a.m.k., og stefni íslenska beygingakerfinu ekki í voða.

Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið er það samið vegna mikillar gagnrýni á gildandi lög. Sú gagnrýni hefur einkum beinst að þröngum eiginnafnaheimildum laganna og því að þau heimila ekki millinöfn. Enn fremur hefur komið fram veruleg gagnrýni á það ákvæði laganna er skyldar þá er öðlast íslenskt ríkisfang með lögum og heita erlendu nafni til að taka sér íslenskt eiginnafn sem börn þeirra verða síðan að taka sem kenninafn. Nöfn manna eru einn mikilvægasti þáttur sjálfsmyndar þeirra og þessi þröngu skilyrði laganna hafa valdið miklum sárindum í mörgum fjölskyldum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þeir sem í hlut eiga geti haldið fullu nafni óbreyttu og að niðjum þeirra verði heimil notkun ættarnafns.

Íslensk nafnahefð er stór þáttur í menningu Íslendinga. Þróunin á þessari öld hefur þó verið sú að sífellt fleiri taka upp ættarnöfn. Ljóst virðist að ættarnöfnum á eftir að fjölga hratt. Í frumvarpinu er lagt til að tekinn verði upp nýr flokkur nafna, svokölluð millinöfn. Með því er meðal annars stefnt að því að ættarnöfn verði fremur notuð sem millinöfn en kenninöfn.

Um millinöfnin er fjallað ítarlega í greinargerð með frv. á bls. 14 og 15, en þar segir m.a., með leyfi virðulegs forseta:

,,Ástæður þess að nefndin leggur þetta nýmæli til eru einkum þessar:

1. Allmikil ásókn er í að fá að gefa millinöfn. Um það bil 38% af þeim nöfnum sem mannanafnanefnd hafnaði frá 1. nóvember 1991 til 1. september 1994 voru millinöfn (90 af 237). Með því að heimila þau er frjálsræði um nafngiftir því aukið verulega og telur nefndin það eftirsóknarvert markmið.

2. Lítt var amast við millinöfnum allt til þess að lög nr. 37/1991, um mannanöfn, tóku gildi [þ.e. núgildandi lög]. Fjöldi manna ber því nöfn af þessu tagi.

3. Algengt er að margir í sömu fjölskyldu beri sama millinafn og því tengist notkun þeirra mjög vitund fólks um uppruna sinn og tilfinningum þess í garð náinna ættingja.``

Allshn. leggur til að frumvarpið verði samþykkt með nokkrum breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali. Ein meginbreytingin sem þar er lögð til er breyting við 8. gr. sem snýr að því að maður geti kennt sig til beggja foreldra eða kennt sig til annaðhvort föður eða móður til viðbótar ættarnafni sem hann á rétt á. Frv. gerir aðeins ráð fyrir að maður geti borið eitt kenninafn. Þannig verða nöfn eins og Pétur Guðrúnarson Jónsson, Guðrún Steinunnardóttir Briem eða Guðjón Jónsson Stephensen heimil. Bent skal á að þarna er einungis um heimildarákvæði að ræða. Telja verður líklegt að langflestir Íslendingar muni áfram vilja halda í þá hefð að nota aðeins eitt kenninafn.

Með hliðsjón af þessari grundvallarbreytingu telur nefndin nauðsynlegt að breyta jafnframt 6. og 7. gr. Breytingin á 6. gr. hefur það í för með sér að heimilt er að nota eignarfall eiginnafns sem millinafn, þegar um er að ræða eiginnafn annars foreldris. Í frv. er þetta bannað þar sem það hefði opnað möguleika á tvöfaldri kenningu. Þar sem lagt er til að tvöföld kenning verði heimil er eðlilegt að þessi möguleiki verði líka fyrir hendi. Dæmi um slík nöfn væru t.d. Pétur Guðrúnar Jónsson eða Guðrún Steinunnar Briem.

Ákvæði 6. mgr. 7. gr., sem lagt er til að falli brott, átti að koma í veg fyrir notkun tvöfaldra ættarnafna, þ.e. að menn tækju sér millinafn sem eins konar ættarnafn til viðbótar því ættarnafni sem þeir bæru. Með hliðsjón af framansögðu eru rökin fyrir slíkri takmörkun ekki til staðar lengur.

Nefndin vill benda á að í þessum breytingartillögum felst ekki heimild til að nota samtenginguna ,,og`` eða bandstrik milli nafna, samanber Pétur Guðrúnar og Jónsson, Pétur Guðrúnar-Jónsson, Guðrún Steinunnardóttir og Briem eða Guðrún Steinunnardóttir-Briem. (Gripið fram í: En komma Briem?) Aðrar breytingartillögur eru eftirfarandi:

Lögð er til breyting á 8. gr. sem er ætlað að koma í veg fyrir að niðjar þeirra sem báru ættarnöfn samkvæmt þjóðskrá og fallið hafa frá í gildistíð núgildandi laga um mannanöfn, nr. 37/1991, glati rétti til að taka upp ættarnafn sem þeir annars ættu rétt á.

Lögð er til breyting á 11. gr. sem er ætlað að tryggja að niðjar þeirra einstaklinga sem fengið hafa ríkisfang án þess að þurfa sjálfir að breyta nöfnum sínum njóti sama réttar og niðjar þeirra sem fengið hafa íslenskan ríkisborgararétt og þurftu að breyta nöfnum sínum. Taka má ímyndað dæmi um sænskan mann að nafni Gunnar Nyström sem fékk íslenskt ríkisfang á síðasta ári og þurfti ekki að breyta nafni sínu þar sem Gunnar er íslenskt nafn. Börn hans, yngri en 16 ára, máttu hins vegar ekki bera ættarnafnið Nyström heldur urðu Gunnarsbörn. Með þessari breytingu verður þeim heimilt að taka upp ættarnafn forfeðra sinna eins og niðjum þeirra einstaklinga sem fengið hafa íslenskt ríkisfang með því skilyrði að þeir breyttu nafni sínu.

[13:45]

Lögð er til breyting á 12. gr. þess efnis að útlendingum verði heimilt að taka upp kenninafn maka síns eins og gildandi lög gera ráð fyrir. Erlend eiginkona íslensks manns sem er Jónsson má þannig nefna sig Jónsson. Einnig verður henni heimilt, eins og frv. gerir ráð fyrir, að nota kenninafnið Jónsdóttir í stað Jónsson ef hún kýs það frekar. Ákvæðið verður því rýmra en í gildandi lögum.

Lögð er til breyting á 13. gr. sem veldur því að allar millinafnabreytingar skv. 6. gr. falla undir dómsmálaráðuneytið. Breytingar á millinöfnum skv. 7. gr. heyra hins vegar undir Hagstofu Íslands, sbr. 2. mgr. 18. gr. sem segir:

,,Allar nafnbreytingar samkvæmt lögum þessum, sem ekki eru bundnar leyfi dómsmrh., skulu tilkynntar þjóðskrá.``

Lögð er til breyting á 14. gr. sem snýr að kenninöfnum barna. Ef óskað er breytingar á kenninafni barns þannig að það fái ættarnafn sem það á rétt á eða verði kennt til móður í stað föður eða öfugt er meginreglan sú að slík breyting skuli tilkynnt þjóðskrá, sbr. 2. mgr. 18. gr. frumvarpsins. Sá háttur verður ávallt hafður á ef foreldrar eru sammála um nafnbreytingu. Sé hins vegar óskað eftir slíkri breytingu og það foreldri, sem barnið hefur verið kennt til, er andvígt breytingunni leggur nefndin til að ráðherra fjalli um málið og leyfi breytinguna því aðeins að sérstaklega standi á og telja verði að hún verði barninu til verulegs hagræðis.

Lögð er til breyting á 21. gr. þess efnis að íslensk málnefnd fái að tilnefna fulltrúa í mannanafnanefnd. Rétt þykir að nefndin verði áfram skipuð þremur mönnum og því er jafnframt lagt til að heimspekideild Háskóla Íslands tilnefni einn fulltrúa í hana í stað tveggja. Ósk um þessa breytingu kom fram í umsögn íslenskrar málnefndar og töldu frumvarpshöfundar að þessi tilhögun væri til hins betra.

Lögð er til breyting á 22. gr. sem felur í sér að mannanafnanefnd gefi út mannanafnaskrá en ekki Hagstofa Íslands. Allshn. telur rétt að verða við eindreginni ósk Hagstofunnar um þessa breytingu.

Lögð er til breyting við 25. gr. þar sem nú hafa verið sett lög um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995, og kemur sú vísitöluviðmiðun m.a. í stað lánskjaravísitölu.

Loks er lögð til sú breyting á ákvæði til bráðabirgða að skýrt komi fram að Hagstofan skuli ávallt leitast við að semja um skráningu nafna. Nöfn skulu einungis skráð samkvæmt reglum sem Hagstofunni ber að setja sér við gildistöku laganna þegar svo stendur á að ekki næst samkomulag um skráningu nafna. Hér er aðeins um bráðabirgðaákvæði að ræða þar sem verið er að vinna að breytingum á tölvukerfi Hagstofunnar og er vonast til að þær breytingar komist í gagnið jafnvel á næsta ári.

Með þessum breytingum er gert ráð fyrir að engin takmörkun verði á skráningum nafna í þjóðskrá. Þetta er auðvitað afar mikilvægt þegar litið er til persónuréttar og jafnræðisreglu stjórnarfarsréttar.

Virðulegi forseti. Með lögum þessum, ef samþykkt verða, er íslensku þjóðinni búin frjálslyndari rammi um nafngiftir en verið hefur og er það von nefndarinnar að þjóðin hafi þannig betra tækifæri til að móta nafnsiði sína en hingað til og að sátt sé um þá framkvæmd.