Mannanöfn

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 13:50:01 (3812)

1996-03-12 13:50:01# 120. lþ. 105.4 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[13:50]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég skrifa undir álitsgerð allshn. með fyrirvara og ætla ég að gera stuttlega grein fyrir hvers vegna. Í fyrsta lagi vil ég að fram komi að innan þingflokks Alþb. og óháðra hefur farið fram umræða um þetta mál og þar komið fram hugmyndir sem ganga í aðrar áttir en þær sem hér er lagt til. En hvað mína skoðun snertir vil ég segja þetta:

Þegar á heildina er litið finnst mér hér um að ræða lagabreytingar í rétta átt og mun ég styðja þær. Með þeim er t.d. opnað á þann möguleika að einstaklingar séu kenndir við báða foreldra sína, móður og föður. Sjálfur hefði ég viljað ganga lengra og koma á því fyrirkomulagi að sérhver einstaklingur yrði í opinberum skýrslum kenndur við báða foreldra, föður og móður. Það væri síðan undir hverjum og einum komið hvort foreldra hann kenndi sig við í daglegu tali eða báða foreldra ef því væri að skipta. Ég er því eindregið fylgjandi að halda í íslenska nafnahefð og held ég að þetta fyrirkomulag, þ.e. þegar einstaklingur yrði kenndur við báða foreldra, yrði til að treysta hana í baráttunni við ættarnöfnin þegar til lengri tíma er litið. Mönnum væri heimilt að nota ættarnöfn sem millinöfn, en öllum væri skylt í opinberum gögnum að kenna sig við móður og föður.

Auk þess er á það að líta að það færist í vöxt að fólk vilji kenna sig við móður í stað föður. Stundum vill það gera breytingar þegar liðið er á ævina, en iðulega fylgja þessu talsverðir erfiðleikar og oft sárindi. Ef fólk væri hins vegar kennt við báða foreldra í opinberum gögnum yrði þetta hinn eðlilegasti hlutur.

Mér finnst þetta líka vera augljóst jafnréttismál kynjanna. Það ætti að vera hin almenna regla að fólk sé kennt við móður sína engu síður en við föður. Ekki féll þessi hugmynd að öllu leyti í grýttan jarðveg í allshn. Engu að síður töldu aðrir nefndarmenn ekki rétt að ganga svo langt að gera það að skyldu að kenna sig við báða foreldra í opinberum skýrslum. Með frv. nú er hins vegar opnað á þennan möguleika. Að mínu mati er það hálft skref inn í framtíðina og mun ég að sjálfsögðu styðja að það verði stigið. Komi fram stuðningur í þinginu við þá hugmynd að stíga skrefið til fulls mun ég flytja brtt. í þá veru við 3. umr.

Að lokum langar mig til að segja örfá orð um þá hugmynd sem stundum er reifuð og gengur út á að fráleitt sé að setja einhverjar reglur yfirleitt um mannanöfn; nöfnum ætti fólk að geta ráðið sjálft og vildi það t.d. taka sér ættarnöfn, ný eða gömul, ætti það að vera sjálfrátt um það, þannig er málflutningurinn. Hér þarf hins vegar að hafa það í huga að frelsi í þessum efnum er í rauninni ekki til. Valið stendur á milli nafnakerfa þótt við séum af veikum mætti að reyna að finna einhverjar millileiðir í því efni. Hætt er við að óheft ættarnafnanotkun kæmi til með að ryðja kenninafnakerfinu út á skömmum tíma. Þetta sýnir reynslan okkur greinilega og nægir að nefna í þessu sambandi að höfnun á ættarnafni er stundum litin sem höfnun á fjölskyldu og veigrar fólk sér að sjálfsögðu við slíku. Þetta mundi takmarka valið þegar fram líða stundir.

Á sama hátt er stundum litið á það sem höfnun á föður þegar einstaklingur kennir sig við móður. Hjá því getum við hins vegar komist með því að skylda alla til að kenna sig við móður og föður í opinberum gögnum. Það dregur úr tilfinningalegu mikilvægi þess hvort foreldri einstaklingur síðan kennir sig við að jafnaði.