Mannanöfn

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 14:38:14 (3816)

1996-03-12 14:38:14# 120. lþ. 105.4 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[14:38]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er svo sem ekki hissa á þessu nefndaráliti miðað við orð þingmannsins núna. Ég segi alveg eins og er. Mér fannst að í hans andsvari kæmi fram tilraun til útúrsnúnings, algjörlega óþarfs útúrsnúnings. Þetta mál snýst ekki um íhaldssemi, hreintungustefnu, frjálshyggjustefnu, frjálslyndi eða eitthvað þess háttar. Þetta snýst um það að Alþingi Íslendinga rati meðalhófið sem er eins góð sátt um og mögulegt er með þjóðinni. Það er grundvallaratriðið, það virðist þingmaðurinn ekki skilja. Og það er tvennt í þessu frv. sem stefnir því í hættu að menn rati meðalhófið. Annað er skilgreiningin á eiginnafni eins og ég rakti áðan og hitt er upptaka millinafnakerfisins sem hvort tveggja á að framkvæma af nefnd sem í rauninni hefur ekkert til að fara eftir annað en sitt eigið mat á hlutunum. Ég tel að það sé útilokað annað en hv. þm. taki undir það að þetta tvennt eru byltingarkenndar breytingar. Þær eru ekki vondar fyrir það, en það er ekki hægt að vísa rökum á bug með þeim orðum að rökin séu íhaldssöm, síst fyrir mann sem kemur úr gamla íhaldsflokknum.