Mannanöfn

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 15:34:27 (3824)

1996-03-12 15:34:27# 120. lþ. 105.4 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[15:34]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins örfáar athugasemdir út af ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Hann var að hafa orð á því m.a. að málið hefði komið of fljótt frá allshn. og að e.t.v. hefði verið of mikill flýtir á meðferð þessa máls. Að mínu mati er þetta ekki rétt fullyrðing hjá hv. þm. Það er ekki bara að málið hafi verið ítarlega unnið í nefndinni heldur þar auki hefur málið verið kynnt sérstaklega, að ég held, í öllum þingflokkum, og var sérstaklega kynnt í þingflokki hv. þm. af tveimur gestum sem voru í nefndinni og sömdu frv. Væntanlega hefðu því átt að koma fram alveg glöggar skýringar á því máli þannig að afstaða manna hefði mátt koma í ljós kannski fyrr. Enn fremur vil ég taka það fram að nál. og brtt. frá allshn. voru komnar fyrir þingið fyrir allmörgum dögum þannig að þm. hv. höfðu þess vegna líka tækifæri til að taka afstöðu til málsins. Ég er alls ekki að gera lítið úr því að hv. þm. séu að ræða þetta mál. Þetta er mál sem mjög skiptar skoðanir eru um bæði á hinu háa Alþingi og í þjóðfélaginu. En ég hef áður rakið skoðanir mínar á því af hverju ég held að þessar lagabreytingar séu nauðsynlegar. Áðan var spurt: Til hvers munu nýjar leikreglur leiða? Þetta er athyglisverð spurning og ég held að það væri rétt að menn gætu fylgt því eftir og skoðað hvaða þróun yrði á mannanöfnum eftir ákveðinn gildistíma laganna. Auðvitað verður gefin út mannanafnaskrá. Þar koma fram ákveðnar upplýsingar. En þingið hefur líka möguleika á að afla sér aðgang að slíkum upplýsingum.

Virðulegi forseti. Ég vildi láta þessar athugasemdir koma hér fram.