Mannanöfn

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 15:50:26 (3827)

1996-03-12 15:50:26# 120. lþ. 105.4 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, KHG
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[15:50]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegur forseti. Það hefur gerst nú eins og oft áður þegar þessi mál eru til umræðu að umræðan verður fjörleg og margir taka þátt í henni. Það endurspeglar einmitt kjarna málsins hversu málið er lifandi í vitund fólks og hversu náið það er hverjum og einum að flestir ef ekki allir láta sig málið varða og reyna eftir bestu getu að hafa á því skoðun. Ég er í hópi þeirra sem hafa verið mjög gagnrýnir á þau lög sem nú eru í gildi og sett voru árið 1991. Ég tel að þau lög hafi verið allt of þröng. Þau hafi gengið allt of langt í þá átt að bregða fæti fyrir vilja fólks um nafngiftir og hafi þar af leiðandi uppskorið verulega óánægju í samfélaginu eins og hv. þm. þekkja frá þjóðfélagsumræðunni á undanförnum árum. Ég tek ekki undir það að óvinsældir núverandi laga megi rekja til þvergirðingsháttar þeirra sem sitja í mannanafnanefnd. Ég tel þvert á móti að löggjöfin sjálf hafi verið orsök óánægjunnar og það er hún sem skapar þá umgjörð sem mannanafnanefnd hefur orðið að fara eftir. Það má auðvitað deila um niðurstöðu nefndarinnar í einstökum tilvikum af þeirri einföldu ástæðu að nefndinni eru gefin bæði stíf skilyrði en ekki að öllu leyti mjög ljós. Hún þarf því oft og tíðum að leggja mat á hlutina og eins og ávallt er þegar um matskennda hluti er að ræða, þá sýnist sitt hverjum um þá niðurstöðu.

Ég er því eindregið hvetjandi þess að þeim lögum verði breytt í þá átt að þau verði fremur löggjöf til leiðbeiningar um þróun í stað þess að vera löggjöf gegn þróun. Löggjöf um svo nátengda hluti hverjum manni sem nafn hans er getur ekki verið bannlöggjöf. Hún verður að vera í formi leiðbeiningarlöggjafar sem reynir eftir föngum að leiða þróunina inn á tilteknar brautir fremur en aðrar. Í þeim efnum verða menn að byrja á því að setja sér markmið, þ.e. hvaða atriði það er sem menn vilja reyna að hafa áhrif á í þróuninni. Það sem ég tel að ætti að vera höfuðtilgangur mannanafnalaga er að leitast við að stýra þróuninni þannig að nöfnin séu íslensk að máli til og skilningi. Þau geta verið útlend að uppruna en það þarf að stuðla að þróuninni á þann veg að íslenskan yfirtaki nöfnin og geri þau að sínum, orð úr sínu máli. Þannig eigum við fyrst og fremst að beita löggjöfinni í þessu máli af þeirri einföldu ástæðu að annað gengur ekki eftir. Það er rakið hér í frv. að viðleitni í fyrri lögum til að stýra þróuninni hefur ekki gengið vegna þess að fólk hefur hana að engu ef hún bersýnilega gengur gegn vilja fólks í þessu nákomna máli.

Annað atriði sem ég tel að eigi að vera markmið löggjafar af þessu tagi og er í frv. er að reyna að vernda tilteknar hefðir. Ég er út af fyrir sig mjög sammála því t.d. að verja þá hefð ef við getum að persóna kenni sig til föður eða móður. Það tel ég vera megineinkenni á íslenskri mannanafnahefð að menn kenna sig til föður eða móður, þ.e. kenna sig til persónu en ekki til ættar eins og algengast er erlendis. Hins vegar bendi ég á þróunina sem rakin er m.a. í þessu frv. til stuðnings því að við getum ekki varið þessa hefð með bannlöggjöf. Við verðum að reyna að stýra vilja fólks með öðrum hætti. Ég get tekið undir þá leið sem reynt er að fara í þessu frv. að opna fyrir millinöfn í þeirri von að þróunin verði að eftir sem áður haldi menn áfram að kenna sig til föður eða móður en taki upp þau nöfn sem millinöfn sem hefðu orðið ættarnöfn. Við verðum bara að setja okkur undir dóm framtíðar. Þróunin verður einfaldlega að ráða. Við getum ekki ætlast til þess að sjá fyrir hvert menn vilja fara í þessum efnum. Ef svo fer að í þessu efni sem ég er að nefna eða einhverju öðru að þróunin gengur til annarrar áttar en við viljum sum hver --- auðvitað er mismunandi skoðun manna nú --- þá verðum við einfaldlega að beygja okkur undir það. Við getum ekki lagst gegn þeirri þróun sem yrði ef, t.d. eins og hér hefur verið nefnt að tiltekin breyting leiðir af sér að eitthvað sem nú er uppi legðist af. Þá verður það bara svo að vera. Þá er það vegna þess að það er vilji fólksins. Við getum ekki sett löggjöf til að stöðva þá þróun. Gagnrökin um að menn eigi ekki að vera með bannlög í þessu efni felast einfaldlega í röksemdafærslunni. Það getur einfaldlega aldrei gengið eftir.

Virðulegi forseti. Ég er eins og áheyrendur hefur kannski rennt í grun stuðningsmaður þess að núverandi löggjöf verði breytt og ég get í meginatriðum tekið undir þær breytingar sem frv. hefur að geyma. Reyndar er ég á þeirri skoðun að löggjöf eigi í þessu efni að undirstrikast með því atriði að nafngift er fyrst og fremst á ábyrgð þeirra sem gefa nafnið. Við verðum að láta þá sem gefa nafnið bera ábyrgðina í öllum meginatriðum. Við eigum að forðast að taka þá ábyrgð af fólki með lagasetningu sem færir þá íhlutunarvaldið og ábyrgðina til annarra sem ekki eru beinir aðilar að málinu.

Almennt er ég á þeirri skoðun að meginreglan ætti að vera sú að þeir sem gefa nafnið ráða því hvaða nafn það er og bera þá á því ábyrgð. Síðan er það á valdi þess sem nafnið fær að breyta því ef honum þykir svo þegar hann vex úr grasi.

Virðulegi forseti. Ég vil nefna tvö atriði þó sem mér finnst vera lýti á þessu frv. og vildi gjarnan að yrði breytt eða jafnvel felld brott. Það fyrra er ákvæði 22. gr. frv. um að úrskurðir mannanafnanefndar séu endanlegir. Ég er ekki sáttur við að mannanafnanefnd skuli falið þar dómsvald að öllu leyti í þessu máli og að þeir sem hlut eiga að máli geti ekki áfrýjað úrskurði nefndarinnar til dómstóla eins og er hin almenna regla í íslensku réttarfari. Ég er á þeirri skoðun að dómstólaleiðin ætti að vera opin í þessu máli eins og flestum öðrum.

Í öðru lagi er ég ekki sammála því sem er að finna í 25. gr. frv. um heimild til stofnunar á vegum framkvæmdarvaldsins að leggja á og innheimta sektir. Ég ekki þeirrar skoðunar að framkvæmdarvaldið eigi að hafa heimildir af þessu tagi. Löggjafinn ætti að fara mjög sparlega í að fela framkvæmdarvaldinu heimild til að sekta þegna landsins. Þá finnst mér það vera hálfgerður hortittur í 25. gr. að taka það fram að sektir skuli vera vísitölubundnar. Sérstaklega í ljósi þess að hér vorum við fyrr í vetur að afgreiða frá Alþingi þá meginstefnumörkun ríkisstjórnarinnar að afnema öll tengsl á milli verðlags og launa, bóta almannatrygginga og vísitölu, svo ég nefni dæmi. Hví skyldu þá sektir eiga að vera bundnar vísitölu ef svo mikilvægur hlutur sem laun eru það ekki? Þetta finnst mér stinga í stúf við almenna stefnumörkun ríkisstjórnarinnar og er fylgjandi því að það verði a.m.k. fellt brott.

[16:00]

Virðulegi forseti. Í þessum lagabálki og brtt. eru auðvitað allmörg atriði sem mér finnst ekki öll vera einboðin. En þau miða að því að leita samkomulags eða ná málamiðlun um útfærslu á undantekningum en lúta ekki að þeirri meginreglu sem ég hef lýst sem skoðun minni og þeirri meginreglu sem er að finna í þessu frv. að opna fyrir þá stirðu löggjöf sem nú er í gildi og breyta henni í þá veru að betri sátt sé líkleg til að nást um hana en þá löggjöf sem menn hafa búið við á undanförnum fjórum árum. Það er dæmi um löggjöf sem hefur eiginlega alveg reynst misheppnuð og því sjálfsagt að breyta henni hið snarasta.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta efni, ég hef lýst skoðun minni til málsins og er fylgjandi því að það verði afgreitt svo fljótt sem verða má.