Mannanöfn

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 16:21:33 (3834)

1996-03-12 16:21:33# 120. lþ. 105.4 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[16:21]

Svavar Gestsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi fyrrnefnda atriðið, eignarfallstakmörkun eiginnafnanna, bið ég um að þetta mál sé heldur ekki afgreitt þannig að auðvitað verði maður að treysta foreldrunum. Alveg eins er það með flutning grunnskólans sem er mikið umtalað mál. Menn sögðu alltaf í sambandi við flutning grunnskólans að við verðum að treysta sveitarfélögunum. Málið snýst ekki um traust eða vantraust í þessu efni. Ég er að segja að sú takmörkun sem byggist á eignarfallinu einu sé órökstudd málvísindalega. Það eru engar sérstakar forsendur fyrir því að takmarka þetta svona frekar en gert er í gildandi lögum. Það sem stendur er bara þetta, eiginnafn skal vera íslenskt eða lúta íslenskum hefðum þannig að ég sé engin rök fyrir því að þessi eignarfallsleið er valin. Ég get alveg tekið undir þetta sjónarmið hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, sem ég heyrði í fyrr í dag, að eiginnafnsatriðið er auðvitað mikilvægt en mikilvægasti hluti nafnakerfisins er þó kenninafnakerfið. Ég endurtek að ég hef engin rök heyrt fyrir þessari eignarfallsleið allshn.