Mannanöfn

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 16:23:16 (3835)

1996-03-12 16:23:16# 120. lþ. 105.4 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[16:23]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Það hefur verið ítarleg umræða um þetta mál og ekki vanþörf á. Ég vil gera að umtalsefni í sambandi við þetta frv. brtt. sem allshn. leggur til auk nokkurra annarra atriða. Það er í fyrsta lagi ákvæði um millinöfn eins og gert er ráð fyrir í III. kafla frv. Ég hef verulegar áhyggjur af þeirri leið og þeirri útfærslu sem þar er lagt upp með. Ég er smeykur um að þetta muni leiða til þess að millinöfn verði tekin upp, sem millinöfn í fjölskyldum sem myndi leiða til þess að millinöfn kæmu að hluta til í stað ættarnafna. Þetta eru áhyggjur sem fleiri hafa lýst hér í umræðunni. Ég tel að margt bendi til að svo geti orðið og ég tel ekki æskilegt að slík þróun eigi sér stað. Það kemur fram í frv. að ættarnöfn hér á landi hafi verið rétt tæp 300 árið 1910 en séu 2.227 árið 1994. Það kemur ekki fram í frv. hvernig þróunin hefur verið síðustu áratugi og hvernig þessum ættarnöfnum hefur fjölgað hér upp á síðkastið.

Mér skilst að eitt aðalvandamálið varðandi fjölgun ættarnafna sé vegna þess að útlendingar sem eru ekki íslenskir ríkisborgarar og bera vitaskuld erlend nöfn að börn þeirra sem eru búsett hér taka upp ættarnafn föður síns. Það veldur því að fjölmörg ný ættarnöfn komi hér inn í nafnaumhverfi okkar. Það virðist ekki vera tekið á því máli sérstaklega en það ætti þó kannski að skoða ef það er þá uppruni þessa vanda sem menn eru að glíma við. Ég held að það sé ljóst að allir vilja viðhalda þeirri hefð sem við höfum haft í nafngift okkar, að kenna sig við föður eða móður þó þannig að ekki sé gengið á rétt þeirra einstaklinga sem bera ættarnöfn.

Ég bendi einnig á að lögin sem voru sett um þetta eru nú ekki mjög gömul, frá 1991, og e.t.v. þarf meiri reynsla að komast á þau. Millinöfn hafa þróast hér óformlega en kannski ekki alveg í ramma núgildandi laga. Ég tel hins vegar að það eigi ekki að lögfesta þetta eins og hér er lagt til. Í umræðunni var kynnt bréf frá nefndarmönnum í mannanafnanefnd, Páli Sigurðssyni og Erlendi Jónssyni þar sem var einmitt getið varðandi millinöfnin að það væri hlutur sem væri andstæður íslenskum siðum en vitaskuld getur þetta allt saman verið álitamál.

Hins vegar vil ég að menn beini huga sínum að öðrum atriðum. Það er í fyrsta lagi í 22. gr. frv. Þar er sagt að úrskurði mannanafnanefndar er ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds. Nefndin skal birta niðurstöður úrskurða sinna árlega. Það að ekki er hægt að skjóta til æðra stjórnvalds tel ég vera slæmt ákvæði í lögum og hefur reyndar verið bent á í umræðunni.

En það sem ég vil gera sérstaklega að umtalsefni er varðandi ættarnöfn og útfærslur þeirra og ég vil kynna brtt. sem við þingmenn Þjóðvaka munum, ásamt vonandi fleiri þingmönnum, flytja við þetta mál. Þar erum við að vísa beint í frv. Með leyfi hæstv. forseta, vil lesa upp úr frv. á bls. 22. Þar segir svo:

,,Önnur leið út úr þessum ógöngum væri að banna ættarnöfn með öllu hér á landi en þótt ýmsum kunni að þykja sú leið æskileg verður að telja hana ófæra. Það er auðsætt brot á mannréttindum að taka af mönnum þau nöfn sem þeir bera. Eins og minnst var á í athugasemdum við III. kafla hugðist nefndin því leggja til að farinn yrði sá meðalvegur í þessu efni að öll ættarnöfn breyttust smám saman í millinöfn með því móti að ófæddir niðjar þeirra sem nú bera ættarnöfn mættu bera þau sem millinöfn ásamt föður- eða móðurnafni en ekki sem ættarnöfn (þó með þeirri undantekningu að barn mætti fá ættarnafn ef það ætti alsystkini sem þegar bæri nafnið).``

Svo segir hér áfram, með leyfi hæstv. forseta:

,,Það orðalag sem nefndin hafði í huga var nokkurn veginn eftirfarandi: ,,Hver maður skal kenna sig til föður eða móður ... Maður sem ber ættarnafn má þó bera það áfram en það gengur ekki til niðja hans. Þó er ávallt heimilt að barn fái sama kenninafn og alsystkini þess.````

Ég tel að mörg rök séu fyrir þessari hugmynd og við munum bera þessa tillögu upp hér sem brtt. við álit nefndarinnar.

Hins vegar, herra forseti, hefur komið fram ósk um að fresta öllu málinu. Ég held að það væri mjög til bóta vegna þess að hér hefur komið fram ýmislegt í umræðunni sem gerir það að verkum að menn þurfa að skoða ýmsa efnisþætti betur. Í svona frv. er ýmislegt tæknilegs eðlis vitaskuld til bóta en hins vegar er kveðið upp úr um mjög veigamikil atriði sem ekki hafa hlotið nægjanlega umræðu á hinu háa Alþingi og innan einstakra þingflokka. Ég bendi á að afstaða gagnvart þessu máli gengur þvert á alla flokkslínur. Það sem ég mundi óska eftir, herra forseti, bæði í ljósi þessarar umræðu þar sem hafa komið fram fjölmargar ábendingar og athugasemdir og í ljósi þess að hér hefur verið boðuð brtt. við frv. að hv. allshn. skoði þetta mál milli 2. og 3. umr. og fari betur yfir það. Ég vil lýsa því yfir, herra forseti, að ég treysti allshn. mjög vel til að gefa málinu gaum á milli 2. og 3. umr. og vega þessi mál og meta á nýjan leik.