Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 17:12:57 (3842)

1996-03-12 17:12:57# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., Flm. SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[17:12]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 504 um aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi. Flutningsmenn auk mín eru aðrir þingmenn Alþfl.

Ástæðan fyrir þessum tillöguflutningi nú er að síðustu mannfjöldatölur frá Hagstofu Íslands hafa sýnt fram á að enn er ekkert lát á flutningi fólks frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Verði framhald á þessum búferlaflutningi verður þess skammt að bíða að jafnvel stóru byggðarlögin á landsbyggðinni geta ekki lengur veitt þá þjónustu sem þörf er á í nútímaþjóðfélagi og það mun að sjálfu sér valda enn frekari brottflutningi fólks. Þá hefur fólksfækkunin nú þegar valdið miklum samdrætti í tekjum margra sveitarfélaga sem þar með hafa átt í stöðugt meiri erfiðleikum við að halda uppi núverandi þjónustustigi, hvað þá heldur að auka þar við og bæta eins og íbúarnir telja sig þurfa. Sums staðar á landsbyggðinni hefur verið reynt upp á síðkastið að bregðast við með sameiningu sveitarfélaga í því skyni að styrkja þau sem rekstrareiningar og auka þjónustu. En jafnvel þær tilraunir munu ekki bera nema takmarkaðan árangur ef fólksfækkun heldur áfram í jafnmiklum mæli og verið hefur.

Margar ástæður valda því án efa að fólk flytur búferlum frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Sumar eru huglægar eða jafnvel sálrænar en aðrar efnislegar. Það er athygli vert að í mörgum byggðarlögum þaðan sem fólksflutningar hafa verið mestir er atvinnustig mjög hátt, mun betra en landsmeðaltal gefur til kynna og atvinnutekjur sömuleiðis. Fólk flytur oft af þessum landsvæðum á staði þar sem atvinnutekjur eru minni og atvinnuöryggið einnig minna. Meiri möguleikar vegna fjölbreyttara atvinnulífs reynast aukinheldur oft vera blekking, m.a. vegna meira atvinnuleysis og meiri menntunarkrafna á höfuðborgarsvæðinu en víða annars staðar. Það má líka benda á að vegna mikillar uppbyggingar í félagsviðfangsefnum sveitarfélaga er þjónusta við barnafólk oft miklu betri á landsbyggðinni en hér á höfuðborgarsvæðinu og aðstæður til uppeldis barna jafnframt ákjósanlegri þannig að efnalegar aðstæður nægja ekki til þess að skýra mikið aðstreymi fólks frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðis. Því er full ástæða til að kanna hvað það er sem þessum búferlaflutningi veldur, hvort einhverjar ástæður séu þar tilgreindar öðrum fremur og einnig hvort hægt er að sjá eitthvert ákveðið mynstur í búferlaflutningum á Íslandi. Þau kunna að vera mismunandi eftir landshlutum, þ.e. að fólk flytji t.d. úr mesta dreifbýlinu, sveitunum, sem hafa átt í miklum erfiðleikum, ekki síst í sauðfjárrækt, til þéttbýlisstaðanna í viðkomandi kjördæmi eða landshluta eða beinlínis til annarra landshluta eða höfuðborgarsvæðisins án viðkomu í þéttbýliskjörnum. Þetta getur að sjálfsögðu verið mismunandi eftir landshlutum, það liggja ekki fyrir nema mjög takmarkaðar upplýsingar um búferlaflutningsmynstur.

[17:15]

Ýmis úrræði hafa verið reynd í krafti byggðastefnu í gegnum ár og áratugi til að treysta byggð hringinn í kringum landið. Þau úrræði hafa yfirleitt einskorðast við fyrirgreiðslu við atvinnulífið á viðkomandi stöðum en þó er það ekki einhlítt. Einnig hafa sveitarfélögum og jafnvel einstökum þjónustufyrirtækjum verið veitt aðstoð. Sum þessara úrræða hafa skilað árangri. Sá árangur hefur oft verið tímabundinn, í einstökum tilvikum varanlegur en önnur virðast ekki hafa skilað þeim árangri sem eftir var sóst. Þess vegna er líka tímabært að fá yfirlit yfir hvaða ráðstafanir sem hafa verið gerðar geta skilað árangri til lengri eða skemmri tíma svo hægt sé að byggja á þeirri reynslu með tilliti til framtíðar. Einnig og ekki síður er nauðsynlegt að vita hvaða úrræði hafa ekki skilað árangri svo menn geti þá valið önnur ráð en þau sem ekki hafa dugað til þess að reyna að vinna gegn þessari alvarlegu þróun.

Einnig er nauðsynlegt að líta í kringum okkur og athuga hvað gert hefur verið í nálægum löndum. Það er mjög athyglisvert þegar við lítum t.d. til Stóra-Bretlands að þar eru svæði sem áður voru langt á eftir, bæði í atvinnutekjum og miklu atvinnuleysi. Nú eru þetta mestu vaxtarsvæði Bretlandseyja. Ég vil þar t.d. nefna Wales, gamla kolanámusvæðið sem skar sig fyrir aðeins örfáum áratugum, eða fyrir 1974, úr frá öðrum svæðum í Stóra-Bretlandi fyrir þær sakir að þar voru vinnudeilur eða tapaðir vinnudagar vegna vinnudeilna um tíu sinnum fleiri en að landsmeðaltali. Þar var atvinnuleysi miklu meira en annars staðar á Bretlandseyjum, þar voru laun miklu lægri og atvinnulífið miklu frumstæðara. Hafin var sókn til að byggja upp atvinnulífið í þessum landshluta árið 1974 þegar stofnuð var ein af fyrstu markaðsskrifstofum í Evrópu til þess m.a. að sækjast eftir erlendu fjármagni til uppbyggingar. Á þeim tímum voru aðeins til tvær slíkar markaðsskrifstofur í allri Evrópu. Nú eru þær yfir 300 og niðurstaðan af vel heppnuðu átaki bæði landsstjórnarinnar og héraðsstjórnarinnar í Wales hefur nú orðið sú að þetta gamla kolanámuhérað, sem var svo aftur úr fyrir aðeins nokkrum áratugum, er nú mesta vaxtarsvæði á Bretlandseyjum. Þar eru tapaðir vinnudagar vegna vinnudeilna orðnir færri en nemur landsmeðaltali. Laun hafa stórhækkað, mjög hefur dregið úr atvinnuleysi og hagvöxtur á þessu svæði er nú meiri en nokkru sinni fyrr, mun meiri en í flestum öðrum héruðum Bretlandseyja. Ekki er þetta vegna þess að þarna sé svo mikið af náttúruauðlindum. Það eru ekki hinar gömlu kolanámur sem standa undir þessari uppbyggingu heldur sú stefna sem mörkuð hefur verið af hálfu stjórnvalda í Stóra-Bretlandi og stjórnvalda í héraðinu Wales.

Það er augljóst að það að geta byggt landið, þar sem landkostir eru þess eðlis að það er lífvænlegt miðað við nútímakröfur um fagurt mannlíf og menningu, er hluti af sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Sú skylda hvílir á herðum okkar Íslendinga að byggja landið vort allt þar sem það er byggilegt og sjá til þess að þær auðlindir sem við eigum séu nýttar og að landið sé í byggð. Með því á ég ekki við að við eigum að berjast á móti eðlilegum búsetubreytingum sem óhjákvæmilegar eru vegna breyttra krafna og aðstæðna, heldur að við látum ekki um okkur spyrjast að staðir sem eiga að geta verið lífvænlegir, bæði vegna atvinnu, búsetumöguleika og möguleika íbúanna á að lifa þar eðlilegu nútímalífi, fari úr byggð í heimi þar sem mannfjöldavandamál verður stöðugt erfiðara viðfangs og fólk deyr milljónum saman úr hungri. Þá getur þjóð sem nýtir landið sitt til fullnustu, og þar á ég við þá staði sem hægt er að nýta með eðlilegum hætti og búa mannsæmandi lífi á, ekki lengi staðið gegn því að aðrir fái þá tækifæri til þess að nýta þá landkosti. Þess vegna er sú stefna að treysta byggðina á Íslandi sjálfstæðismál, hluti af þeirri eilífu sjálfstæðisbaráttu sem þjóðin á í.

Við leggum til, herra forseti, í þessari þáltill. að Alþingi feli forsrh. að skipa nefnd þar sem sitji m.a. fulltrúar Byggðastofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, aðilar vinnumarkaðar og ráðuneyta og nefndinni verði falin fjögur tiltekin verkefni. Það er í fyrsta lagi að gera úttekt á því hvað einkum veldur því að fólk flytur í jafnmiklum mæli og verið hefur búferlum frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Í því sambandi verði m.a. skoðað hvernig búferlaflutningum er hagað, þ.e. hvort þeir tengjast tilteknum aldurshópum eða atvinnustéttum, svo og hvort um beina búferlaflutninga er að ræða eða tilfærslur sem verða milli dreifbýlis og þéttbýlis á landsbyggðinni og þéttbýlisins þar og höfuðborgarsvæðisins. Einnig verði kannað með úrtaksathugunum hjá þeim sem flutt hafa búferlum til höfuðborgarsvæðisins frá landsbyggðinni á síðustu fimm til tíu árum hvaða ástæður séu tilgreindar fyrir flutningnum. Í því sambandi verði sérstaklega athugað að hve miklu leyti stefna sú, sem fylgt hefur verið í málefnum framhaldsmenntunar á Íslandi með höfuðáherslu á bóklegar námsgreinar, kann að hafa valdið búseturöskun. Atvinnutækifæri fyrir ungt fólk með slíka menntun eru mun færri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu þar sem í byggðarlögum úti á landi er hins vegar oft skortur á fólki með verk- og tæknimenntun.

Ég legg sérstaka áherslu á það í þessu sambandi að þarna er nauðsynlegt að skoða mun fleira en atvinnutekjur og atvinnutækifæri. Ég er t.d. sannfærður um að verulegur hluti af þessari búseturöskun stafar af þeirri áherslu sem við höfum lagt í uppbyggingu á okkar framhaldsskólakerfi. Það á að mennta ungt fólk til bóklegs framhaldsnáms sem gefa fá atvinnutækifæri úti á landsbyggðinni þegar námi er lokið. Þetta er þáttur sem getur verið ráðandi í þessum efnum. Svona takmörkuð könnun hefur verið gerð einu sinni áður fyrir nokkrum árum á vegum Húsnæðisstofnunar ríkisins og mér skilst að í febrúarmánuði, eða skömmu eftir að þessi tillaga var lögð fram og henni dreift á Alþingi, hafi stjórn Byggðastofnunar samþykkt að hefja slíka könnun eins og ræðir um hér í 1. gr. (Gripið fram í: Það er alveg ótengt því.) En mér er ekki kunnugt um hvort könnunin sé jafnvíðtæk og þarna er gert ráð fyrir. Ég heyri að hv. þm. kallar fram í að sú niðurstaða hafi verið óháð þessari tillögu, það má vel vera. Ég er einfaldlega að skýra frá þeirri staðreynd að stjórn Byggðastofnunar samþykkti að þessi könnun skyldi fara fram og sú samþykkt var gerð nokkru eftir að þessari tillögu var dreift á Alþingi. Ég legg ekkert frekari merkingu í það, ég skýri bara frá staðreyndum. Hv. þm. sem fram í kallaði hlýtur að vita gerr um þetta enda á hann sæti í stjórn Byggðastofnunar og líka á Alþingi og hefur því væntanlega getað sameinað þekkingu sína frá báðum þessum stöðum.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að fela umræddri nefnd að meta hvaða árangur hefur orðið á aðgerðum sem gripið hefur verið til á umliðnum árum af hálfu opinberra aðila til að treysta byggð á landsbyggðinni, þ.e. hvaða úrræði hafa lánast og hver ekki.

Í þriðja lagi er nefndinni falið samkvæmt þessari þáltill. að kanna hvaða aðgerðir sem gripið hefur verið til í nálægum löndum til að efla búsetu í jaðarbyggðum og auka fjölbreytni í atvinnulífi og treysta byggð eru taldar hafa skilað bestum árangri og í fjórða lagi að gera tillögur um til hvaða úrræða stjórnvöld á Íslandi, þ.e. ríkisstjórn, Alþingi og sveitarstjórnir, geta gripið til þess að treysta byggð á Íslandi þar sem landkostir eiga að geta boðið upp á lífvænlega afkomu, þjónustu og menningarlíf í samræmi við nútímakröfur. Lagt er til að niðurstöður nefndarinnar verði lagðar fyrir Alþingi sem skýrsla og kynntar sveitarstjórnum og almenningi og að kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Herra forseti. Ég tel að tillaga af þessu tagi, svo víðfeðm sem hún er, sé vissulega tímabær. Það er tímabært eftir margra ára starfsemi, sem ekki hefur skilað tilætluðum árangri til að treysta byggð á Íslandi, að meta hvað hefur borið árangur í þeim efnum og hvað ekki. Það er nauðsynlegt að kynna sér hvað veldur þessari miklu búseturöskun. Það er nauðsynlegt að skoða hvaða aðgerðir hafa lánast í löndunum í kringum okkur þar sem við sambærilegt vandamál hefur verið að etja. Það er líka nauðsynlegt að taka saman tillögur eða handbók um það hvað íslensk stjórnvöld og þá fleiri en ríkisstjórn og Alþingi, þar á meðal sveitarstjórnir og stjórnarstofnanir, geta gert til að treysta byggð á Íslandi á þeim stöðum þar sem byggð á að geta verið lífvænleg.

Ég legg svo til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þáltill. vísað til síðari umr. og væntanlega til allshn. Það er sennilega eðlilegasta að sú nefnd taki við þessari tillögu.