Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 17:26:47 (3843)

1996-03-12 17:26:47# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[17:26]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er athyglisverð tillaga á ferð og ég held að það gæti verið afar fróðlegt og gagnlegt að fá úttekt af þessu tagi. Mér segir svo hugur að það gæti eflaust margt komið á óvart í slíkri könnun.

Það er mjög margt að athuga í þessu samhengi og rifjast þar upp fyrir mér grein sem ég las fyrir nokkru um könnun sem hafði verið gerð í Noregi á búferlaflutningum þar í landi. Þar hefur átt sér stað sama þróunin og hér og reyndar í allri Evrópu undanfarin 200 ár eða svo þar sem þéttbýli hefur stöðugt verið að vaxa og íbúum að sama skapi að fækka í sveitum í kjölfar tækniþróunar og þróun markaðarins. Þar hafa allar breytingar orðið í þá átt að færa fólk nær vinnustaðnum og verksmiðjunum og framleiðsluna nær markaðnum. En þessi könnun sem gerð var í Noregi leiddi í ljós að meginástæðan fyrir því að fólk flutti frá nyrstu byggðum Noregs suður á bóginn var veðrið. Það var ekki atvinnan, það var ekki menntunin eða félagsþjónustan heldur veðrið. Þetta tengist því að heimurinn er að verða svo lítill og minnkar sífellt meira í gegnum sjónvarp og gervihnetti. Það kom fram í svörum fólks sem hafði flutt að það hafði horft á fólk spóka sig í góða veðrinu á Karl Johann í Ósló, hímandi sjálft í kulda og trekki einhvers staðar norður á hjara veraldar. Það hafði einfaldlega ekki áhuga á að lifa slíku lífi. Þetta þótti mér afar athyglisvert og það væri fróðlegt að heyra hvað þær þúsundir Íslendinga sem hafa flutt sig um set, aðallega suður á bóginn, segja um ástæður búferlaflutninganna. En það er vert að spyrja sig að því hvort þetta sé búseturöskun, eins og svo oft er nefnt hér á landi, eða búsetuþróun í samhengi við breytta atvinnuhætti, breyttan markað og fleira í þeim dúr. Ég spyr hvers vegna það hefði ekki átt að gerast hér á landi að þéttbýlisstaðir stækkuðu og þeir fáu íbúar sem hér eru þjappi sér saman í stóran kjarna í samræmi við þær breytingar sem við sjáum um heim allan. Það má minna á að núna í júní eru Sameinuðu þjóðirnar að halda sína síðustu stórráðstefnu um byggð og þróun byggðar í heiminum, einmitt vegna þessarar þróunar sem hefur átt sér stað um allan heim.

[17:30]

Við erum svo efnislega þenkjandi hér á landi að við byrjum alltaf á að spyrja um tekjurnar, um atvinnustigið og fleira og fleira, hin efnislegu gæði. En ég hygg að þegar allt kemur til alls þá sé það svo margt annað sem ræður meiru um það hvernig fólk velur sér búsetu og að það breyti um búsetu. Þó trúi ég því að það sé rétt sem fram kom í máli 1. flm. þessarar till. að sú áhersla sem hér hefur verið í menntamálum hafi haft þarna töluvert mikið að segja. Við þekkjum eflaust öll ótal dæmi um fólk sem komist hefur til mennta. Ég get bara tekið sjálfa mig sem dæmi. Að vísu fluttu foreldrar mínir um leið og elstu börnin fóru í menntaskóla. En ekki gæti ég snúið aftur til heimabyggðar minnar. Það er ekkert fyrir mig að gera þar. Ekki í mínu fagi. Það gildir eflaust um mjög marga að fólk sem hefur sérmenntað sig í tækni og vísindum og ýmsum háskólagreinum á einfaldlega ekki afturkvæmt af því að þar er ekkert fyrir það að gera. Og jafnvel þó svo væri þá kemur upp það vandamál að það er ekkert fyrir makann að gera sem einnig er oft með háskólamenntun. Auðvitað hefur þetta allt sitt að segja fyrir utan svo menningarlífið, félagslega þjónustu, það hvað atvinnulíf er víða einhæft og að ekki sé minnst á einangrun. Vegna þess að staðreyndin er sú að til þess að byggð lifi af þá þarf þar ákveðinn lágmarksfjölda. Þeir sem sáu heimildarmynd um Sléttuhrepp og byggðina á Hornströndum nú nýlega í sjónvarpinu ættu að átta sig á þessari þróun. Þegar íbúatalan var komin niður fyrir ákveðna tölu þá einfaldlega hrundi byggðin. Þá er ekki grundvöllur lengur fyrir byggð. Fyrir utan svo allt það sem snýr að atvinnulífi og lífsbaráttu sem auðvitað var gífurlega erfið á því svæði.

Það hefur verið þróunin hér eins og annars staðar að þar sem lífsbaráttan var langsamlega hörðust, þaðan hafa líka fólksflutningar verið mestir. En það er ákaflega athyglisvert að menn hafa verið að reyna að sporna við hér með því m.a. að byggja upp gott heilbrigðiskerfi og gott skólakerfi. Við erum með gríðarlega marga skóla, framhaldsskóla um allt land þótt reyndar þurfi nemendur víða að sækja nokkuð langt til að komast í skóla. En allt kemur fyrir ekki. Þróunin er stöðugt í þá átt að byggðin vex hér á suðvesturhorninu en minnkar úti á landsbyggðinni.

Við getum líka velt því fyrir okkur að nýleg könnun leiddi í ljós að fjöldi ungs fólks á Íslandi er tilbúinn til að flytja úr landi. Stöndum við hugsanlega frammi fyrir því á næstu áratugum að þurfa yfir höfuð að verja byggð á Íslandi, ekki bara í sveitum landsins og hér fyrir utan þennan stóra byggðakjarna, heldur hreinlega á Íslandi vegna þess að hugarfarið er að breytast og það mikið?

Hæstv. forseti. Tíma mínum er alveg að ljúka. Ég hefði haft gaman af að velta þessum málum hér fram og aftur fyrir mér. Ég hef stundum furðað mig á því hvernig menn tala um þessar breytingar og þróun hér á landi í óskaplega sorglegum tón. Kannski er það hryggilegt að sjá byggðina sína minnka og vera í mikilli vörn. En við megum ekki gleyma því að það sem hér hefur gerst er einfaldlega í samræmi við breytingar alls staðar í heiminum. Og ég veit ekki, hæstv. forseti, hvort aðgerðir eru til eða hvaða aðgerðir eru til til að breyta þessu nema hugsanlega breytt lífsgildi. Hugsanlega gætu breytt lífsgildi fólks haft þarna einhver áhrif. En sú könnun sem hér er verið að leggja til er að mínum dómi mjög athyglisverð og ég hygg að við hefðum öll mjög gott af að fá slíka könnun í hendur.