Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 17:39:18 (3845)

1996-03-12 17:39:18# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[17:39]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil nú eins og síðasti ræðumaður fagna því að menn taka þessi mál til umræðu á þingi. Ekki er vanþörf á í ljósi þeirrar þróunar sem verið hefur undanfarin ár, mörg hver, í fólksfækkun á landsbyggðinni. Hins vegar verð ég að segja að mér finnst alþýðuflokksmenn vera býsna fátækir í sínum málatilbúnaði. Þeir eru búnir að sitja í ríkisstjórn í átta ár og loksins þegar búið er að sturta þeim úr ráðherrastólunum fara þeir að muna eftir landsbyggðinni og koma með tillögu sem heitir: um aðgerðir til þess að treysta byggð á Íslandi.

Gott og vel. Hverjar eru þá tillögur Alþfl.? Þær eru tvær. Í fyrsta lagi skal skipuð nefnd. Í öðru lagi á nefndin að gera tillögur. Alþfl. hefur engar tillögur. Hann hefur ekkert til málanna að leggja eftir átta ára ríkisstjórnarstarf. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson studdi tvær ríkisstjórnir og sat reyndar í annarri á átta ára tímabili. Á þeim tíma fækkaði Vestfirðingum um eitt þúsund. Hann minntist aldrei á tillöguflutning um aðgerðir til að treysta byggð á landsbyggðinni á þeim tíma. Þetta er hlutur sem gerir það að verkum að málatilbúnaður af þessu tagi verður ótrúverðugur. Þetta verður svona skrautmál til að varpa fram þegar mikið er kallað eftir tillögum stjórnmálamanna út á landi eins og var síðasta haust á Vestfjörðum og eflaust víðar um landið í kjölfar talna sem sýndu fram á mikla fólksfækkun. Þá var spurt: Hvaða tillögur hafið þið fram að færa? Og mér finnst eðlilegra að menn reyni að spreyta sig á því að varpa fram hugmyndum sínum um það hvert vandamálið sé og hvaða tillögur menn hafa til að reyna að bregðast við því.

Alþfl. hefur svo sem tillögur þótt hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sé svo hógvær að hann nefni þær ekki. Alþfl. er með fínar tillögur a.m.k. að eigin mati til þess að leysa þessi mál. Ég vil nefna tvær. Fyrri tillagan er sú að leggja niður kjördæmin. Hafa eitt kjördæmi á Íslandi. Það er mikill búhnykkur fyrir landsbyggðarkjördæmin og væntanlega til að treysta byggð á Íslandi. Síðari tillagan er sú að leggja sérstakan skatt á sjávarútveg sem heitir veiðileyfagjald og á að leggjast á þá sem stunda þennan atvinnurekstur. Sérstakur skattur á sjómenn og sérstakur skattur á verkafólk í landi. Tillaga Alþfl. til að efla byggð á Íslandi er um veiðileyfagjald sem leggst að 86% á landsbyggðina, á svæðið utan höfuðborgarsvæðisins. Eru þetta tillögur til að treysta byggð á Íslandi? Alþfl. segir: Þetta eru tillögurnar til að treysta byggðina á Íslandi. Hann segir ekki á landsbyggðinni heldur á Íslandi. Ég segi þessar tillögur veikja byggðina á landsbyggðinni og er ekki á bætandi. (KÁ: Af hverju er þingmaðurinn svona vondur við Alþfl. á afmælisdaginn?) Ég er ekkert vondur við Alþfl. Ég er þvert á móti að reyna að leiða hv. þm. sem flytja þessa tillögu fyrir sjónir að þeir eigi að gera betur en þeir hafa gert hingað til. Það er nú frekar að vera góður við þá en hitt. (Gripið fram í: Afmælisgjöf.) Það er afmælisgjöf frá mér til hv. þm. Alþfl. að þeir eigi að huga að þessum stefnuatriðum sínum og endurskoða þau. Ég segi það í mestu vinsemd. Bið ég þá um að taka upp vinsamlegri pólitíska stefnu í þessum efnum en verið hefur. (SighB: Gjafirnar líkar gefandanum.) Já, já, ég veit að hv. þm. kann vel að meta gjafirnar.

En ég vil segja mína skoðun á þessu máli. Númer eitt, tvö og þrjú er að breyta stjórnkerfinu á Íslandi þannig að þeir sem búa úti á landi ráði meira en verið hefur um sitt umhverfi. Við þurfum að minnka valdsvið Alþingis og ríkisins og auka valdsvið manna þar sem þeir eru. Og ég er að tala um héraðastig.

Eitt af því sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir kallaði þróun og taldi óhjákvæmilegan hlut svona eins og annað lögmál Newtons, er ekkert slíkt heldur pólitísk ákvörðun um að byggja upp ríkisvaldið hér. Það er markvisst pólitískt ákvarðað að hafa hér fleiri, fleiri þúsund störf en ekki úti á landi. Það er ekki þróun. Það er niðurstaða af pólitískri stefnu. Af þeirri stefnu að hafa fullkomið miðstýringarvald hér á landi. Það sem við þurfum að breyta er að afnema þessa miðstýringu og efla styrk manna úti á landi þannig að þeir ráði málum meira sjálfir. Það er það sem fyrst og fremst þarf að gera. Það þarf ekkert að efla byggð á Íslandi í þeim skilningi að það þurfi að fá einhverja menn hér til að segja okkur hvað við eigum að gera. Við þurfum að fá vald til að ráða málum sjálfir. Með því eflum við byggð á Íslandi fyrst og fremst.

[17:45]

Það er að mínu viti ekki verkefni manna hér að ákvarða hvernig menn nýta fiskimið á Íslandi. Því eiga menn að ráða heima í héraði og þegar menn hafa vald á auðlindum sínum til lands og sjávar þá hafa menn styrkinn til þess að gera þá hluti sem þarf að gera, hver á sínu svæði. Þessar aðgerðir eru að mínu viti grundvallaratriði til þess að breyta einhverju um þá þróun sem verið hefur alla þessa öld eða frá því árið 1904 þegar við fengum heimastjórn og afnámum þá í leiðinni síðustu leifar héraðastjórna sem höfðu verið við lýði við aldir hér á landi. Það er merkilegt að það skuli vera á þeim tíma sem Íslendingar hafa ráðið málum sínum sjálfir á þessari öld skuli vera tími miðstýringar. Mér finnst þetta bera vott um vanþroskaða stjórnsýsluhætti nýfrjálsrar þjóðar. Við þurfum að endurmeta þetta í ljósi reynslunnar og taka upp héraðastigið sem hefur á skort á þessari öld og er að mínu viti einn stærsti örlagavaldurinn á öldinni um þróun byggðar á landinu.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir nefndi sem dæmi byggðirnar Aðalvík og á Hornströndum sem hefðu eyðst mjög snöggt. Kannski eru nákvæmlega þær byggðir þannig í sveit settar að framfarir á samgöngusviði og öðrum skyldum sviðum hefðu verið það dýrar að menn hafi ekki ráðið við það á þeim tíma, ég vil ekki dæma um það. En einmitt þetta dæmi er mjög skýrt til að undirstrika að miðstjórnarvaldið í Reykjavík brást ekki við að veita mönnum þau úrræði og fylgja tækniframförum þannig að menn vildu búa þarna áfram, menn urðu ekki lengur samkeppnisfærir í lífsskilyrðum miðað við svæðið á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er einmitt gott dæmi um skort á skilningi valdsins hér á nauðsynlegum úrbótum úti á landi.