Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 18:20:41 (3852)

1996-03-12 18:20:41# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:20]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um fyrra atriðið sagði ég að framan af hefði lengi verið sú stefna stjórnvalda að verja óbreytt búsetumunstur, m.a. hér á Alþingi. Þetta hlýtur hv. þm. að þekkja enda er hann ritstjóri þess málgagns sem rúm fyrstu 20 árin eftir stofnun flokka okkar beggja hafði það einmitt á stefnuskrá sinni. Ég ætla að taka það fram að ég ætla ekki að kasta neinum steinum á þessum afmælisdegi til okkar gamla samstarfsflokks nema síður væri en ef hv. þm. flettir upp í bók Guðjóns Friðrikssonar um Jónas frá Hriflu þá mundi hann komast að raun um það að fyrstu tvo áratugina var stefnan að vinna gegn þéttbýlismyndun, ekki bara í Reykjavík heldur gegn þéttbýlismyndun á landinu almennt. Þá var gripið til margra úrræða á Alþingi til að tryggja að búsetumynstrið héldist algerlega óbreytt og meira að segja reynt að snúa við og færa fólk úr þéttbýlinu í dreifbýlið, t.d. með lögum um nýbýli og stofnun nýbýla. Í þetta var varið umtalsverðum fjárhæðum þannig að það liggur alveg ljóst fyrir að fyrstu rúmlega tvo áratugina var þetta stefna stjórnvalda.

Um seinna atriðið að líkja saman húsi og fiskimiðum getum einfaldlega sagt: Finnst hv. þm. það siðlegt að tilteknir aðilar, fáir miðað við fjöldann, geti fengið að nýta sér eign annarra manna, eign fjöldans og selt hver öðrum nýtingarréttinn fyrir hátt verð án þess að gjalda eigandanum nokkra leigu fyrir? Mér er alveg sama, virðulegi forseti, þó að hann segi að það eigi ekki við að bera saman fiskimið og hús, en þarna er um það að ræða að nýta sér eignir annarra manna án afgjalds, án þess að greiða fyrir það leigu og meira að segja, virðulegi forseti, að standa í viðskiptum sín á milli með þann nýtingarrétt fyrir háar fjárhæðir.