Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 18:28:11 (3856)

1996-03-12 18:28:11# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:28]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. og skal taka það fram til þess að forða öllum misskilningi að tillagan var ekki flutt í sérhagsmunaskyni. Tillagan var flutt vegna þess að við flutningsmenn töldu að hún gæti gagnast öllum íbúum á Íslandi vegna þess að það er ekki heldur eftirsóknarvert fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu að landið eyðist á öðrum stöðum.

Við getum rætt lengi um veiðileyfagjald. Ég ræddi ekki um það að sjómenn væru almannaeign. Ég ræddi um það sem er í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða að miðin eru eign allrar þjóðarinnar. Það eru bara tilteknir örfáir einstaklingar sem hafa leyfi til að nýta sér þessi mið og standa í viðskiptum sín á milli með nýtingarréttinn. Það eru ekki sjómenn. Sjómenn standa ekki í kvótabraski. Sjómenn hafa út af fyrir sig ekki réttindi til að nýta miðin. Það eru útgerðarmennirnir og eigendur fiskiskipanna sem fyrst og fremst hafa þennan rétt, hafa fengið hann fyrir ekkert hjá þjóðinni en versla með hann sín á milli fyrir miklar fjárhæðir. Mér finnst það ekki eðlilegt svo að ég ítreki það að einhverjir tilteknir einstaklingar fái úthlutað með skömmtunarkerfi frá Alþingi og ofan úr Stjórnarráði einkarétt til að nýta sér almannaeign, fái síðan að versla sín á milli með þann nýtingarrétt og hafa af því miklar tekjur á sama tíma sem eigandinn hefur engar tekjur af auðlind sinni.