Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 18:39:19 (3863)

1996-03-12 18:39:19# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., StB
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:39]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræður en vil aðeins fara nokkrum orðum um þá till. til þál. sem hér hefur verið mælt fyrir og er til umræðu, þ.e. um aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi. Ég fagna þessari tillögu og tel að hún sé bæði þörf og nauðsynleg. Hins vegar vil ég taka undir það með hv. 5. þm. Norðurl. e. að ég held að hún sé ekki síst nauðsynleg endurhæfingarathugun fyrir hv. þingmenn Alþfl.

Ég vil samt sem áður og áður en ég vík að tillögunni, nefna það vegna þeirrar umræðu sem fór fram í andsvörum um loðdýraræktina að ég ætla rétt bara að vona það, hæstv. forseti, að Byggðastofnun fari nú varlega ef hún er byrjuð að veita lán eða styrki til loðdýraræktar vegna þess sem hv. þm. Stefán Guðmundsson sagði. Það er afskaplega mikið atriði.

Varðandi þessa tillögu vil ég segja það að ég tel að hún sé að mörgu leyti skynsamlega upp byggð, þ.e. að í fyrsta lagi sé gerð úttekt á því og reynt að meta það hvað hafi einkum valdið þeirri þróun sem hefur orðið hér á landi og við getum ekkert á móti mælt. Ég tel að það sé í fyllsta máta eðlilegt. Í öðru lagi hvaða árangur hafi orðið og leita einnig í þriðja lagi til þess sem hefur gerst í nágrannalöndum og svo í fjórða lagi að gera tillögur.

Auðvitað hefði verið mjög æskilegt til þess að geta hafið pólitíska umræðu um hugmyndir alþýðuflokksmanna að það kæmi fram eins og hv. 5. þm. Vestf. nefndi, hvað Alþfl. leggur sérstaklega til. Ég met hins vegar þær skýringar sem hv. 1. flm., hv. 4. þm. Vestf., nefndi að hann vildi fyrst skoða og kanna áður en gerðar eru tillögur. Ég met þennan rökstuðning. Þegar við skoðum stöðuna og reynum að meta forsendur fyrir stöðugleika og jafnri byggðaþróun, er það í fyrsta lagi mikilvægast að það sé nægilegt framboð atvinnu á þeim svæðum sem byggð er, það sé bærilegt menntunarframboð, það sé þjónustuframboð, svo sem heilbrigðisþjónusta og það sé hóflegt vöruverð í landinu og það kannski ekki hvað síst. Þessi skilyrði hafa ekki verið til staðar í landinu að ég tel. Þess vegna hefur sú röskun orðið sem raun ber vitni. Engu að síður og það vil ég undirstrika, tel ég að e.t.v. sé alvarlegasti þátturinn í þessu öllu saman og sá þáttur sem hefur valdið e.t.v. þeirri miklu röskun sem hefur orðið, að það hafi á tímabili verið röng gengisskráning. Hún hefur leitt til þess að sjávarútvegsfyrirtækin hafa orðið illa úti á meðan þjónustufyrirtækin og m.a. mörg verslunarfyrirtæki hafa notið hennar. Þetta er flókið mál. En ég tel að þetta sé e.t.v. ríkasta ástæðan fyrir því sem hefur gerst.

En hvað er til ráða? Ég bíð eftir þessari könnun áður en ég nefni margar hugmyndir eða tillögur til úrbóta. Það er tvennt sem ég vil þó nefna. Það er algert lykilatriði ef við ætlum að halda eðlilegri byggðaþróun í landinu að við getum nýtt auðlindirnar. Það er forsendan fyrir því að búseta haldist og við getum byggt upp afkomu þjóðarinnar með viðunandi hætti. En meginforsendurnar og þau aðalatriði sem ég tel að stjórnvöld eigi að beita sér í, fyrir utan hinar almennu aðgerðir til þess að styrkja atvinnulífið, eru bættar samgöngur og lækkun á orkuverði í landinu. Ég tel að mikilvægustu aðgerðirnar, beinu aðgerðirnar sem stjórnvöld geta beitt sér fyrir séu þessir tveir þættir, lækkun orkuverðs og bættar samgöngur. Þetta vil ég að komi fram í þessari umræðu en vil að öðru leyti þakka hv. þm. Alþfl. fyrir það frumkvæði sem þeir sýna hér. Ég er sannfærður um að hugur fylgi máli og þeir styðji okkur stjórnarliða í því að bæta sem best aðstöðu hinna dreifðu byggða.