Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 18:57:14 (3867)

1996-03-12 18:57:14# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:57]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil í upphafi taka undir með hv. 1. flm., Sighvati Björgvinssyni, að það hefur örugglega ekkert eitt á síðasta kjörtímabili stuðlað eins mikið að framgangi og því að viðhalda byggð í hinum dreifðari byggðum landsins en EES-samningurinn. Ég held að það sé alveg ljóst. Eins og staðan er í dag, er fátt sem við getum gert betra til að styrkja byggðina en að byggja upp og auka samgöngurnar.

Varðandi það sem ég nefndi áðan um þær hugmyndir sem kæmu fram í tillögunni um það til hvaða ráða ætti að grípa í sambandi við byggðamálin og það sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði í sinni ræðu áðan um það sem hefur verið að gerast í Wales á kolanámusvæðunum, held ég að við verðum að horfast í augu við að hinar dreifðari byggðir hér á landi eiga afskaplega lítið sameiginlegt með kolanámusvæðunum í Suður-Wales. Á kolanámusvæðunum í Suður-Wales búa 2 millj. manna, tveir þriðju af íbúatölu Wales. Þarna er ekki um að ræða dreifða byggð eins og við erum að tala um á Norðausturlandi, Norðvesturlandi eða Vestfjörðum. Þetta er eitt af þéttbýlustu svæðum Stóra-Bretlands og þarna eru hefðbundin kolanámu- og stáliðnaðarsvæði.

Árið 1994 var tilkynnt að þarna yrði eytt í styrki af hálfu ríkisstjórnar Íhaldsflokksins í Bretlandi 1.000 millj. sterlingspunda. Ég held því að aðstæðurnar sem þarna er um að ræða eig afskaplega lítið sameiginlegt með hinum dreifðari byggðum hér á landi. Ef það er eitthvert svæði sem þær eiga eitthvað sameiginlegt með, er það frekar þéttbýlissvæðið á suðvesturhorninu. Þá er það starf sem unnið hefur verið á Suðurnesjunum varðandi frísvæði og á Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu einna helst það sem kemst nálægt því hjá okkur að vera eitthvað í líkingu við það sem hefur verið að gerast á kolanámu- og stálsvæðunum í Suður-Wales. En þrátt fyrir það að ég telji það jákvætt sem þar hefur verið að gerast og þær hugmyndir sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson nefndi að hann vildi draga sinn lærdóm af þessu starfi sem fram hefur farið í Wales, þá er þar samt um að ræða gríðarlega mikið styrkjaverkefni af opinberri hálfu. Það er þetta sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur verið að gagnrýna og ég hef verið að taka undir með honum að við værum að reka stefnu styrkja og niðurgreiðslna en ekki stefnu þar sem um væri að ræða frjálst atvinnulíf og markaðsbúskap. Um það snerist EES-samningurinn. Hann snerist um frelsi í atvinnulífi og markaðsbúskap en ekki um styrkjastefnur.