Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 19:04:10 (3870)

1996-03-12 19:04:10# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[19:04]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þm. kallar styrkja- og niðurgreiðslustefnu eru úrræði sem hefur verið beitt í mörg herrans ár og er beitt enn. Spurningin er bara sú hvort þær aðferðir sem menn hafa valið skila tilætluðum árangri. Mér dettur ekki í hug að það verði alfarið afnumið að reynt verði af opinberri hálfu að styðja t.d. við atvinnulíf á stöðum sem eru að hrynja, ekki vegna þess að þeir liggi ekki vel við veiðum eða ekki sé næg þekking á veiðiskap eða öðru slíku heldur vegna þess að fyrirtækin eru svo veik að þau eru að missa kvótann úr byggðarlaginu og ekkert er eftir. Auðvitað verður haldið áfram að styðja við bakið á slíkum aðilum. Auðvitað verður reynt að koma í veg fyrir það að heilu héruðin leggist í auðn. Spurningin er bara sú hvort þær leiðir sem við höfum valið hafi skilað nægilega góðum árangri eða hvort við getum lært af reynslu okkar sjálfra og af úrræðum annarra. Ég tek það fram að þessir svokölluðu opinberu styrkir til uppbyggingar atvinnulífi í Wales, fyrst við erum alltaf að tala um það, er ekki nema lítill þáttur í því sem réði úrslitum um að þessi tilraun þeirra tókst. Það voru ýmsir aðrir sem komu að þeirri lausn, m.a. menntakerfið, m.a. verkalýðshreyfingin, m.a. sveitarstjórnir, m.a. öflugt kynningarstarf á þeim tækifærum sem þarna buðustu o.s.frv. Af þessum fordæmum eigum við að reyna að læra þannig að þeir peningar sem við notum í þessu skyni nýtist sem best.