Gjaldskrá Pósts og síma

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 13:45:05 (3877)

1996-03-13 13:45:05# 120. lþ. 106.1 fundur 350. mál: #A gjaldskrá Pósts og síma# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[13:45]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Jöfnun símkostnaðar er tvímælalaust eitt mikilvægasta og brýnasta hagsmunamál landsbyggðarinnar. Það hefur náðst verulegur árangur á þessu sviði á undanförnum árum og almennt hefur símkostnaður lækkað mjög mikið hér á landi og mun nú vera sá lægsti sem um getur í ríkjum OECD. Hvað varðar landsbyggðina hafa þau svæði sem eru undir sama svæðisnúmeri verið stækkuð og kemur það sér vel. En óánægja landsbyggðarmanna er eftir sem áður með það hvað dýrt er að hringja til höfuðborgarinnar þar sem flestar stofnanir ríkisins eru staðsettar auk margháttaðra þjónustufyrirtækja. Mörg fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu hafa mætt þessu með því að koma sér upp grænum símanúmerum sem er mjög góð þjónusta við landsbyggðina. Það hafa einnig stofnanir ríkisins gert en því miður ekki nærri nógu margar.

Alþingi samþykkti í hittiðfyrra þáltill. sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson flutti ásamt fleiri þingmönnum Sjálfstfl. þar sem gert var ráð fyrir að grænum númerum yrði komið upp í öllum ráðuneytum og helstu stofnunum ríkisins á árinu 1995. Það kom fram hér á Alþingi í haust að aðeins þrjú ráðuneyti og nálægt 20 ríkisstofnanir hafa fengið grænar línur. Það væri tvímælalaust mikill fengur að því fyrir íbúa landsbyggðarinnar að framfylgt yrði að fullu þeirri ályktun sem Alþingi samþykkti samhljóða árið 1994.