Gjaldskrá Pósts og síma

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 13:46:31 (3878)

1996-03-13 13:46:31# 120. lþ. 106.1 fundur 350. mál: #A gjaldskrá Pósts og síma# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[13:46]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 4. þm. Reykn. fyrir fyrirspurnina og hæstv. samgrh. fyrir svörin. Ég vil nota þetta tækifæri til að ítreka skoðanir mínar sem áður hafa komið fram hér í þingsölum um þetta mál að það beri að taka inn í frv. til laga um stofnun hlutafélags um Póst og síma að landið verði gert að einu gjaldsvæði. Það er ekki vansalaust að einstaklingar og fyrirtæki þessa lands skuli búa við viðskiptahindranir af því tagi sem felast í svæðaskiptingu hvað gjaldskrá varðar. Ég hef áður fært rök fyrir því úr þessum ræðustól að stofnkostnaður sem byggist á vegalengd er ekki verulegur þáttur í kostnaði sem taka þarf tillit til í gjaldskrárgerð. Með formbreytingu fyrirtækisins verður jafnframt breyting á skattlagningu þess og því tel ég vera svigrúm í rekstri fyrirtækisins til að gera þessar breytingar.

Í svari hæstv. ráðherra kom fram að ekki standi til að gera breytingar nema þannig að landið verði tvö gjaldsvæði. Ég spyr því þingheim: Vilja menn búa við þetta ástand til frambúðar?