Gjaldskrá Pósts og síma

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 13:48:04 (3879)

1996-03-13 13:48:04# 120. lþ. 106.1 fundur 350. mál: #A gjaldskrá Pósts og síma# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[13:48]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að verulega hefur miðað í rétta átt til jöfnunar á símkostnaði í landinu. Engu að síður er það svo að enn þá skortir nokkuð á að þessi kostnaður hafi verið lækkaður eins og eðlilegt er. Ég vil þó í þessu sambandi segja að þetta mál hefur á sér nokkrar hliðar sem menn verða að skoða jafnframt því sem við reynum að stefna að því að jafna þennan símkostnað. Það er sú staðreynd sem fram kom í máli hæstv. samgrh. hér áðan að það eru innifalin ákveðin skref í afnotagjaldi notenda Pósts og síma. Þau eru 200 hér á höfuðborgarsvæðinu en 400 út á landi. Í þessu felst ákveðin kjarajöfnun. Það er t.d. ljóst að það eru heimilin og kannski ekki síst þau heimili sem hafa minna á milli handanna sem munar um þetta. Þess vegna vil ég segja það, virðulegi forseti, að um leið og við stígum þessi skref í átt til jöfnunar á símkostnaði þá verðum við að gæta þess að verja þann rétt sem þetta fólk hefur, þ.e. þessi inniföldu skref í sínum símkostnaði. Við verðum að horfa til þess að við séum ekki að færa byrðarnar yfir á það fólk um leið og við stígum þetta skref í átt til jöfnunar sem eðlilegt er. Um leið vil ég þakka hæstv. samgrh. svörin og hv. málshefjanda fyrirspurnina.