Vá vegna olíuflutninga

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:00:08 (3885)

1996-03-13 14:00:08# 120. lþ. 106.2 fundur 354. mál: #A vá vegna olíuflutninga# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:00]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil aðeins segja út af hinni fyrri fyrirspurn þar sem spurt er hvort samgrh. muni beita sér fyrir því hér heima og erlendis að kröfur um gerð búnaðar á siglingu skipa sem flytja olíu til landsins verði hertar og samræmdar m.a. í ljósi ítrekaðra stórslysa við Bretlandseyjar, að þessi spurning eins og hún er orðuð heyrir undir umhvrn. Það vekur aftur upp þá spurningu, eins og raunar í ýmsum öðrum tilvikum einnig, hvort ekki sé rétt að mengunarmál og umhverfismál sem varða siglingar á hafi skuli eins og áður heyra undir Siglingamálastofnun en ekki umhvrn. En það er annað mál. Ákvörðun var tekin á sínum tíma að færa það yfir og hafa ekki komið upp umræður að breyta því en auðvitað er spurning hvort þessi mál eigi ekki að vera á einni hendi.

Síðari spurningin er svohljóðandi, með leyfi forseta: Hvaða ráðstafanir koma einkum til álita til að draga úr líkum á strandi eða öðrum áföllum sem leitt geta til stórfelldrar mengunar vegna olíuflutninga við strendur landsins?

Þetta mál hefur verið í athugun undanfarið og má minna á það að Siglingamálastofnun hélt fund um þessi mál 27. apríl 1993. Í kjölfar þess eða 5. maí 1993 ákvað Benedikt Guðmundsson siglingamálastjóri að myndaður yrði hópur til að vinna að tillögum um siglingar við Ísland sem í áttu sætu fulltrúar frá útgerðarfélögum, kaupskipaútgerðum og útvegsmönnum, olíufélögum, Landhelgisgæslu, Hafrannsóknastofnun og Siglingamálastofnun sem vann að því að semja reglur sem yrðu til þess fallnar að draga úr hættu á mengunarslysum við Ísland m.a. með því að breyta siglingaleiðum. Raunar hafa tveir hv. þm., Guðmundur Hallvarðsson og Guðjón Guðmundsson, flutt þáltill. um sama efni, um tilkynningarskyldu olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning. Það mál er nú til athugunar í samgn. og hefur verið sent út til umsagnar. Formaður samgn., hv. þm. Einar Guðfinnsson, hefur sagt mér að nefndin stefni að því að málið fái afgreiðslu nú á þessu þingi. Í tillögugreininni segir m.a., með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta skýrar reglur um tilkynningarskyldu og afmörkun siglingaleiða olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning inn í íslenska efnahagslögsögu, ...``

Í svari frá Siglingamálastofnun um þessi efni sem ég bað um í tilefni af þessari fyrirspurn segir m.a., með leyfi forseta:

,,Meðal þeirra aðgerða sem til greina koma er að útbúnar verði leiðbeiningar um siglingar skipa við Ísland með yfirliti yfir sérstök svæði við strendur landsins ásamt upplýsingum um viðeigandi varúðarráðstafanir til að forðast mengun á þeim. Skilgreining þessara svæða tæki mið af annars vegar klak- og hrygningarstöðum helstu nytjafiska í hafinu og stórum fuglabjörgum og öðrum friðlýstum svæðum við strendur Íslands og hins vegar svæðum sem eru varasöm eða hættuleg vegna siglingafræðilegra aðstæðna.

Til greina kemur að beina skipum, sem flytja olíu til Faxaflóasvæðisins, lengra frá landi þegar þau sigla meðfram suðurströnd landsins og fyrir Reykjanes. Siglingar á þeim slóðum, einkum fyrir ókunnuga, geta verið mjög varasamar eins og fjölmörg dæmi sanna.

Jafnframt er hugsanlegt að gera meiri kröfur um tilkynningarskyldu og leiðsöguskyldu skipa, sem sigla með olíu og önnur hættuleg efni til Íslands eða um íslenska landhelgi en nú er gert með lögum nr. 34/1993, um leiðsögu skipa. Útfærsla á slíku yrði á svipaðan hátt og í löndum sem við berum okkur saman við.

Loks kemur til greina að gera sérstakar kröfur um smíði og búnað skipa, sem flytja olíu til Íslands, umfram þær sem gerðar eru í alþjóðasamþykktum en slíkt verður þó ekki gert nema að vel athuguðu máli. Í því sambandi vil ég þó taka fram að ekki stendur til að banna siglingar tankskipa með einfaldan byrðing hingað til lands. Þau skip, sem flytja olíu hingað til lands nú, eru að jafnaði með mjög þéttri niðurhólfun ásamt tvöföldum botni, sem dregur úr líkum á að olía renni í sjóinn þó svo að gat komi á botn þeirra.``

Herra forseti. Ég vil svo bæta því við að við munum að sjálfsögðu leggja áherslu á að fylgja þessu máli eftir og að skýrar reglur verði settar um ferðir þessara skipa hér við land.